Innlent

Þrjúhundruð stöðvaðir og einn tekinn fyrir ölvunarakstur

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Nokkur röð myndaðist á Hringbraut í gær þar sem lögreglan lét alla blása í áfengismæla.
Nokkur röð myndaðist á Hringbraut í gær þar sem lögreglan lét alla blása í áfengismæla. Vísir

Einn var gripinn grunaður um ölvunarakstur í aðgerðum lögreglu á Hringbraut í gær. Lögreglan lokaði Hringbraut til austurs í gær og lét alla ökumenn þar blása í áfengismæla. 

„Í gær voru stöðvaðir tæplega þrjú hundruð bílar. Af þeim voru þrír ökumenn kyrrsettir og einn tekinn fyrir meintan ölvunarakstur,“ segir Árni Friðleifsson, aðstoðarvarðstjóri í umferðardeild Lögreglunnar á höfuðuborgarsvæðinu. 

Lögregla gerir þetta iðulega á aðventunni og segir Árni í samtali við fréttastofu að ökumenn geti átt von á að vera stöðvaðir hvenær sem er sólarhrings, alla daga vikunnar. Hann segir því miður að ökumenn séu líklegri til að aka undir áhrifum á þessum tíma árs. 

Sjá einnig: Lokuðu Hringbraut til austurs og láta alla blása

„Það hefur sýnt sig. Það er náttúrulega bæði þessi jólahlaðborð og vinnustaðasamkomur þar sem gleði og áfengi er haft við hönd. Við viljum einfaldlega reyna að ná til þeirra sem taka þessa ákvörðun að aka ölvaðir,“ segir Árni. 

Enginn ökumannanna sem stöðvaðir voru í gær voru grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna, þó það sé nokkuð algengt ef miðað er við dagbókarfærslur lögreglu sem berast á hverjum degi. 

„Við höfum gert þetta undanfarin ár og því miður er alltaf eitthvað um að fólk, ökumenn, freistist til að aka undir áhrifum,“ segir Árni. 

„Þetta er háalvarlegt, ölvunarakstur og fíkniefnaakstur er háalvarlegur. Þannig að öll umræða er af hinu góða,“ segir Árni og skorar á alla ökumenn að setjast ekki undir stýri undir áhrifum.  



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×