Fótbolti

Bjóða stuðningsmönnum sínum upp á ókeypis húðflúr til að fagna titlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dylan Borrero og M.Zaracho fagna titli Atletico Mineiro.
Dylan Borrero og M.Zaracho fagna titli Atletico Mineiro. Getty/Buda Mendes

Atletico Mineiro varð brasilískur meistari í fótbolta á dögunum og það er óhætt að segja að félagið ætli að halda upp á þennan árangur með sérstökum hætti.

Brasilíska félagið ætlar nefnilega að bjóða stuðningsmönnum sínum ókeypis húðflúr til að halda upp á langþráðan titil.

Útvarpsstöð í heimaborginni Belo Horizonte tilkynnti þetta í gær. Það er reyndar ekki félagið sjálft sem mun borgar fyrir þessa fjöldaframleiðslu á Atletico Mineiro húðflúrum heldur einn styrktaraðili félagsins.

Það fylgdi ekki sögunni um hversu stór þessi húðflúr megi vera eða hvað má setja á sig og hvað ekki en það er verktakafyrirtækið MRV sem ætlar að borga fyrir ósköpin.

Útvarpsstöðin Radio Itatiaia sagði að fjörið myndi byrja klukkan níu um morguninn og svo væri það bara fyrstir koma, fyrstir fá.

Atletico Mineiro var þarna að vinna sinn fyrsta meistaratitil í fimmtíu ár eða síðan 1971. Hulk og Diego Costa spila báðir með liðinu en liðið er búið að vinna titilinn þrátt fyrir að það séu enn tvær umferðir eftir. Costa, sem er fyrrum leikmaður Chelsea og Atletico Madrid, kom til félagsins í ágúst síðastliðnum.

Atletico Mineiro tryggði sér titilinn með 3-2 sigri á Bahia á útivelli en fjöldi fólks mætti á höfuðstöðvar félagsins sem og í miðborg Belo Horizonte til að horfa á leikinn á stórum skjám og svo fagna titlinum í leikslok.

„Það eru fimmtíu ár síðan við unnum titilinn og það er langur tími. Núna verðum við að fanga,“ sagði Keno sem skoraði tvö mörk í þessum endurkomusigri en liðið lenti 2-0 undir eftir 66 mínútna leik.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.