Innlent

Stjórn­völd boði stöðnun í nýju fjár­laga­frum­varpi

Eiður Þór Árnason skrifar
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Aðsend

BSRB gagnrýnir nýtt fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og segir það boða stöðnun í opinbera geiranum á sama tíma og blása þurfi til sóknar.

Bæta þurfi verulega í útgjöld ríkisins til almannaþjónustunnar og einungis sé boðuð óveruleg aukning í frumvarpinu. Þá sé ákalli eftir auknu fé í heilbrigðisþjónustuna ekki svarað.

Þannig eru til að mynda aukin framlög til heilbrigðisþjónustunnar að stærstum hluta vegna heimsfaraldursins og byggingu nýs Landspítala en ekki til að styrkja heilbrigðiskerfið í heild sinni,“ segir í tilkynningu frá BSRB. Þar að auki sé ekki slakað á aðhaldskröfum til mikilvægra ríkisstofnanna.

„Eftir vanfjármögnun sem má rekja aftur um áratug er kominn tími til að blása til sóknar og grípa til aðgerða sem fela í sér raunverulega lífskjarasókn. Það er gert með því að styrkja almannaþjónustuna til að standa undir sterkri velferð og tryggja að ekki verði gengið enn frekar á andlega og líkamlega heilsu starfsfólksins sem veitir þjónustuna.“

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra kynnti fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar í morgun.Vísir/Vilhelm

Þurfi að endurskoða fyrirkomulag barnabóta

BSRB bætir við að öruggt húsnæði á viðráðanlegu hafi verið ein stærsta krafa launafólks en engin breyting sé boðuð á framlögum til húsnæðisuppbyggingar í fjárlagafrumvarpinu. Slíkt valdi miklum vonbrigðum.

„Aukning ráðstöfunartekna tekjulægstu hópanna sem boðuð er í fjárlagafrumvarpinu er til bóta en eins prósents hækkun á örorkulífeyri umfram verðlag mun ekki hafa mikil áhrif á lífskjör öryrkja og því síður hjálpa þeim sem fastir eru í fátæktargildru að komast út úr vandanum,“ segir í tilkynningu.

Hækkun skerðingarmarka barnabóta sé jákvæð en þó þurfi að ráðast í heildarendurskoðun á barnabótakerfinu.

„Auka verður framlög til almenna íbúðakerfisins, hækka greiðslur almanna- og atvinnuleysistrygginga til að draga úr tekjuójöfnuði, og draga verður stórlega úr tekjutengingum barnabótakerfisins þannig að bæturnar skerðist aðeins í allra hæstu tekjutíundunum.“


Tengdar fréttir

Bjarni segir hvorki þörf á skattahækkunum né niðurskurði á næstu árum

Bjartsýni ríkir í fyrsta fjárlagafrumvarpi og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem reiknar með meiri afkomubata ríkissjóðs en áður var áætlað. Það skili sér til fyrirtækja og heimila því hvorki þurfi að hækka skatta né skera niður til að halda upp góðri opinberri þjónustu. Barnabætur verið auknar og frítekjumark eftirlaunafólks tvöfaldað.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.