Fótbolti

Adam sló í gegn með kollhnís: Draumur fyrir strák frá smábæ á Íslandi

Sindri Sverrisson skrifar
Adam Ingi Benediktsson í viðtali eftir frumraun sína í Svíþjóð.
Adam Ingi Benediktsson í viðtali eftir frumraun sína í Svíþjóð. Skjáskot/@ifkgoteborg

Hinn 19 ára gamli Adam Ingi Benediktsson, markvörður frá Grundarfirði, lék sinn fyrsta leik í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta með stórliði IFK Gautaborgar í gær og sló strax í gegn hjá stuðningsmönnum.

Þetta segir í grein Göteborgs-Posten um Adam þar sem tekið er fram að sérstakur kollhnís Adams fyrir leik, að eigin marki, hafi vakið mikla athygli.

„Ég geri þetta fyrir hvern leik,“ sagði Adam Ingi í viðtali við GP, þar sem hann þáði jafnframt að fá að vita að kollhnís er í sænsku kallaður „kullerbytta“.

Adam heillaði stuðningsmenn ekki síður með frammistöðu sinni í leiknum sjálfum, því hann hélt markinu hreinu í 4-0 sigri á Östersund.

„Þetta er eins og einhver draumur. Vera hér fyrir framan 15.000 manns, frá smábæ á Íslandi,“ sagði Adam Ingi.

Adam Ingi sagði frá því í viðtali við Fótbolta.net á sínum tíma að hann væri frá smábænum Grundarfirði á Snæfellsnesi. Hann lék svo með yngri flokkum FH og HK þar til að hann fluttist til Svíþjóðar sumarið 2019 og hóf að leika með U19-liði Gautaborgar. Á dögunum skrifaði hann svo undir atvinnumannasamning við félagið sem gildir til ársloka 2024.

Aðalmarkvörður Gautaborgar, Giannis Anestis, er á förum frá félaginu og það gæti gefið Adam fleiri tækifæri á næstu leiktíð. Hann hefur nú að minnsta kosti fengið fyrsta tækifærið sitt en leiktíðinni í Svíþjóð lýkur um næstu helgi þegar Gautaborg sækir Norrköping heim.

Adam segist hafa vitað það í nokkra daga að komið væri að fyrsta leik hans í sænsku úrvalsdeildinni: „Þjálfarinn tók mig til hliðar og sagði mér frá þessu. En ég áttaði mig ekki á þessu fyrr en ég gekk inn á völlinn með öllu sem því tilheyrir. Þá kom adrenalínið,“ sagði Adam.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×