Fótbolti

Þið eruð ekki Bayern, við erum Bayern!

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Oliver Kahn talar á aðalfundi Bayern Munchen
Oliver Kahn talar á aðalfundi Bayern Munchen EPA-EFE/PHILIPP GUELLAND

Það var talsverður hiti á árlegum aðalfundi þýska stórliðsins Bayern Munchen sem fram fór í Bæjaralandi seint á fimmtudagskvöld. Fundurinn leystist upp í hróp og köll og var fundinum slitið við litla hrifningu þeirra sem mættu. Ástæða ósættisins er styrkarsamningur við Qatar Airways.

Fyrirfarm var búist við talsverðum hita á fundinum enda hafði einn fundargestur, Michael Ott, gefið það út að hann myndi leggja fyrir fundinn ályktin sem myndi banna forsvarsmönnum Bayern að semja aftur við Qatar Airways um auglýsingar á búningum liðsins. Fyrr um daginn hafði dómstóll í héraðinu sagt að sú tillaga væri ekki tiltæk og því hafnaði fundarstjórinn því að tillagan yrði borin upp. Það féll ekki í góðan jarðveg hjá þeim sem sóttu fundinn sem gerðu hróp og köll að fundarstjóranum.

Ott flutti þó aðra tillögu. Hún fjallaði um að Bayern þyrfti alltaf að hafa alþjóðleg mannréttindi í huga þegar kæmi það því að nota ímynd liðsins. Þessi tillaga féll vel í kramið hjá fundargestum sem samþykktu tillöguna með miklum meirihluta, eða 77.8%. Öll stjórnin, þar með talinn framkvæmdastjórinn Oliver Kahn og forseti félagsins, Herbert Hainer kusu gegn tillögunni.

Fljótlega eftir miðnætti steig formaður stuðningsmannaklúbbsins upp í pontu og spurði hvers vegna liðið þyrfti að semja við flugfélagið ríkisrekna, hvers vegna væri ekki bara samið við þann sem átti næst hæsta tilboðið.

Hainer sagði þá að það hefði ekkert verið ákveðið í þeim efnum og sleit fundinum skyndilega. Það var ekki vinsælt hjá fundargestum sem gerðu að forsetanum hróp og köll og sögðust vilja hann á bak og burt. Margir voru enn á mælendaskrá og tók einn þeirra upp á því að standa einfaldlega upp á stól og lesa ræðuna sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×