Lífið

Tón­list og dans sem sprengdi krútt­skalann við opnun jóla­þorps Hafn­firðinga

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Dansatriði ungra Hafnfirðinga við eitt vinsælasta jólalag allra tíma vakti mikla lukku. 
Dansatriði ungra Hafnfirðinga við eitt vinsælasta jólalag allra tíma vakti mikla lukku.  Vísir/Egill

Hellisgerði í Hafnarfirði er nú komið í hátíðarbúning annað árið í röð. Bæjarstjóri Hafnarfjarðar segir jólaþorpið hafa fengið góð viðbrögð og bjóða þau upp á alls kyns nýjungar í ár.

Jólaþorpið var sett á fót í fyrsta sinn fyrir síðustu jól og stóðu viðbrögðin ekki á sér. Fjölmargir kíktu í fjörðinn yfir hátíðirnar til að njóta ljósadýrðarinnar í garðinum með fjölskyldu og vinum.

„Nú er bærinn okkar að komast í jólafötin ef svo má segja, hann er orðinn ljósum skreyttur sem aldrei fyrr og stendur sannarlega undir nafni sem jólabærinn,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, sem var viðstödd þegar jólaþorpið opnaði í kvöld.

„Hellisgerði, þessi gamli listagarður okkar Hafnfirðinga, er aftur að breytast í ævintýraland eins og í fyrra þegar við létum gamlan draum rætast að skreyta þennan fallega garð með jólaljósum,“ segir Rósa sem segir bæjarbúa hlakka til aðventunnar.

Að sögn Rósu er einnig von á ýmis konar nýjungum í ár, til að mynda verður skautasvell sett upp í miðbænum í desember og mun Bæjarbíó, menningarhús Hafnfirðinga, bjóða upp á ljúfa stemningu.

„Þannig það er stemning hérna víða um bæinn og alls kyns örviðburðir sem má eiga von á,“ segir Rósa. Eitt slíkt atriði var í kvöld þegar tónlistamennirnir Ragnar Már Jónsson og Þór Sverrisson stigu á svið.

Þá gátu gestir og gangandi fylgst með dansatriði ungra Hafnfirðinga sem sprengdi vægast sagt krúttskalann en hægt er að sjá brot af dansinum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.