Innlent

Ætla að kynna nýja ríkisstjórn á sunnudaginn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hulunni verður svipt af stjórnarsáttmálanum á sunnudag leggi lykilstofnanir stjórnarflokkanna blessun sína yfir hann.
Hulunni verður svipt af stjórnarsáttmálanum á sunnudag leggi lykilstofnanir stjórnarflokkanna blessun sína yfir hann. Vísir/vilhelm

Formenn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ætla að funda með lykilfólki í flokkunum sínum á morgun og kynna fyrir þeim stjórnarsáttmála. Leggi þeir blessun sína yfir stjórnarsáttmálann verður hann kynntur fyrir þjóðinni á sunnudag.

Þetta sögðu Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, að loknum fundi með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, í Ráðherrabústaðnum í dag. Fundinum lauk á öðrum tímanum í dag.

Katrín sagði að laugardagurinn fari í að funda í flokksstofnunum þar sem stjórnarsáttmálinn verður lagður fyrir flokkana.

„Ef þeir leggja blessun sína á stjórnarsáttmálann verður þetta kynnt í kjölfarið,“ sagði Katrín. Stefnt er að því að það gerist á sunnudaginn eftir ríkisráðsfund með forseta Íslands á Bessastöðum.

Sigurður Ingi segir nýja ríkisstjórn, skipuð sömu flokkum og áður, verða ríkisstjórn stórra verka - eins og þá fyrri. Hún sé hins vegar stöðugt að færast í átt að meiri skynsemi.

Aðspurður hvort fjölgað yrði í hópi ráðherra vildi Sigurður Ingi ekki staðfesta neitt en minnti á að talað hefði verið fyrir því. Sigurður Ingi lofaði því síðasta sumar að nýtt innviðaráðuneyti myndi líta dagsins ljós næði Framsóknarflokkurinn góðri niðurstöðu í kosningunum 25. september, sem varð raunin.


Tengdar fréttir

Ný ríkisstjórn á morgun eða hinn

Reiknað er með að Katrín Jakobsdóttir flytji stefnuræðu nýrrar ríkisstjórnar á Alþingi á miðvikudag. Stjórnarsáttmáli stjórnarinnar verður annað hvort kynntur á morgun eða á sunnudag.

Staðfestu kjörbréf allra þingmanna

Alþingi staðfesti í kvöld kjörbréf allra þeirra 63 þingmanna sem Landskjörstjórn gaf út að lokinni endurtalningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi. Alþingi samþykkti tillögu meirihluta kjörbréfanefndar þess efnis og verður því ekki boðað til uppkosningar. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×