Innlent

Bensín­lekinn á Hofs­ósi: N1 hefji fram­kvæmdir innan tveggja vikna

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Hofsósi í Skagafirði. Myndin er úr safni.
Frá Hofsósi í Skagafirði. Myndin er úr safni. Getty

Umhverfisstofnun hefur birt fyrirmæli um þær úrbætur sem krafist er af hendi N1 vegna leka frá bensíngeymi félagsins á afgreiðslustöð þess á Hofsósi. Þar segir að hefja skuli gröft á skurðum og niðursetningu loftunarröra vegna hreinsunarstarfsins innan tveggja vikna.

Staðfest var í desember 2019 að það læki úr bensíngeyminum og var hann grafinn upp og fjarlægður næsta sumar. Á botni geymisins fannst gat og reyndist mikil olíumengun í jarðvegi. Þrjú nálæg íbúðarhús voru metin óíbúðarhæf, auk afgreiðslustöðvarinnar, vegna mengunarinnar og var ráðist í umfangsmiklar jarðvegsrannsóknir til að meta umfangið.

Fyrirmæli Umhverfisstofnunar byggja á tillögum sem settar voru fram úrbótaáætlun sem verkfræðistofan Verkís hf. vann fyrir hönd N1.

Þar segir að markmið hreinsunarinnar sé að þau hús sem hafi orðið fyrir áhrifum mengunarinnar (Suðurbraut 6, 8, 9 og 10) verði sem fyrst íbúðarhæf og að styrkur mengunarinnar í þeim valdi ekki heilsuspillandi áhrifum.

N1 er meðal annars gert að hefja gröft á skurðum í kringum Suðurbraut 6, 8 og 10 og sömuleiðis á milli þeirra ef hægt er. Þá segir að það skuli setja niður loftunarrör í samræmi við tillögur í úrbótaáætlun, að því gefnu að framkvæmdaleyfi sveitarfélagsins Skagafjarðar liggi fyrir framkvæmdinni. Skulu framkvæmdir hefjast innan tveggja vikna frá útgáfu fyrirmælanna síðasta mánudag.

Auk þess skuli setja kolasíur á öll loftunarrör og blásara, auk þess að skila reglulegum áfangaskýrslum til Umhverfisstofnunar um framvindu hreinsunarstarfsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×