Fótbolti

Mourinho þurfti að kaupa fokdýra skó fyrir hetju Roma

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
José Mourinho þurfti að skreppa í skóbúð í morgun.
José Mourinho þurfti að skreppa í skóbúð í morgun. getty/getty

José Mourinho, knattspyrnustjóri Roma, þarf að efna loforð sem hann gaf Felix Afena-Gyan, hetju liðsins gegn Genoa, og kaupa rándýra skó handa honum.

Afena-Gyan kom inn á sem varamaður á 75. mínútu í leik Genoa og Roma í ítölsku úrvalsdeildinni í gær. Þá var staðan markalaus. Afena-Gyan var ekki lengi að láta að sér kveða því á 82. mínútu kom hann Rómverjum yfir. Hann bætti svo öðru marki við í uppbótartíma.

Afena-Gyan er fyrsti leikmaðurinn sem er fæddur 2003 sem skorar í ítölsku úrvalsdeildinni. Ganverjinn er jafnframt þriðji yngsti erlendi leikmaður til að skora í ítölsku úrvalsdeildinni á eftir Valeri Bojinov (sautján ára og 337 daga) og Alexandre Pato (átján ára og 147 daga). Afena-Gyan var átján ára og 306 daga þegar hann skoraði mörkin tvö í gær.

Felix Afena-Gyan skoraði sín fyrstu mörk fyrir aðallið Roma í gær.getty/Danilo Vigo

Afena-Gyan fagnaði fyrra marki sínu með Mourinhos og minnti hann á loforð sem hann hafði gefið honum.

„Ég hafði lofað Felix að kaupa handa honum skó sem hann langar í. Þeir eru mjög dýrir og kosta átta hundruð evrur. Hann hljóp til mín og minnti mig á það! Það fyrsta sem ég geri á morgun er að kaupa skóna handa honum,“ sagði Mourinho eftir leikinn í gær.

Afena-Gyan kom til Roma frá EurAfrica í heimalandinu í mars á þessu ári. Leikurinn í gær var hans þriðji fyrir aðallið Roma.

Með sigrinum í gær komst Roma upp í 5. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×