Fótbolti

Sara Björk orðin mamma

Sindri Sverrisson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir og Árni Vilhjálmsson með nýfæddan son sinn.
Sara Björk Gunnarsdóttir og Árni Vilhjálmsson með nýfæddan son sinn. Instagram/@sarabjork90

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, og Árni Vilhjálmsson, leikmaður Breiðabliks, eignuðust son á þriðjudaginn.

„16.11.21 Þegar allt breyttist til hins betra!“ skrifar Sara sem greinir frá fæðingunni á samfélagsmiðlum í dag. Þar tekur hún jafnframt fram að móður og barni heilsist vel.

Íþróttavöruframleiðandinn Puma vinnur að heimildarmynd um Söru, meðgönguna og leið hennar aftur út á fótboltavöllinn. Í síðustu dagbókarfærslu hennar fyrir Puma frá því fyrr í þessum mánuði kvaðst hún farin að finna fyrir mikilli þreytu og eiga í erfiðleikum með að koma sér úr sófanum.

„Ég reyni ekki að telja dagana en ég er tilbúin að koma honum út. Að fá litla strákinn minn í heiminn. Það verður ótrúleg stund að fá hann í fangið,“ sagði Sara þá.

Átta mánuðir eru síðan að Sara spilaði síðast fótboltaleik en það var með liði hennar Lyon gegn Bröndby í Meistaradeild Evrópu.

Sara hefur sett stefnuna á það að geta snúið aftur til leiks á næsta ári og spilað með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu í Englandi.

„Ég sé mig fyrir mér spila á Englandi og fá barnið í fangið eftir leik með alla íslensku stuðningsmennina í stúkunni. Hugurinn er þar en sjáum hvort líkaminn fylgi með,“ sagði Sara í viðtali við Forbes fyrir skömmu.


Tengdar fréttir

Sara Björk á í erfið­leikum með að koma sér upp úr sófanum

Íslenski landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir er að verða móðir í fyrsta sinn á næstunni en síðustu vikur hafa reynt mikið á Söru og hún viðurkennir að hún sé alveg tilbúinn að fá strákinn sinn í fangið sem fyrst.

Segist ekki vilja velja á milli fjöl­skyldunnar eða fót­boltans

Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir er gengin nokkra mánuði á leið með sitt fyrsta barn. Hún vill vera ein þeirra afrekskvenna sem snýr aftur eftir barnsburð og þar með sýna að konur þurfi ekki að velja milli íþróttaferilsins eða að eiga fjölskyldu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×