Erlent

Leigubílstjóri hylltur sem hetja eftir hryðjuverk í Liverpool

Kjartan Kjartansson skrifar
Vopnaðir lögreglumenn að störfum þegar nokkrir menn voru handteknir í Liverpool í gærkvöldi.
Vopnaðir lögreglumenn að störfum þegar nokkrir menn voru handteknir í Liverpool í gærkvöldi. AP/Peter Byrne

Breska lögreglan segir að sprenging í leigubíl fyrir utan sjúkrahús í Liverpool í gær hafi verið hryðjuverk. Ekki sé þó ljóst hvað árásarmanninum gekk til. Leigubílstjóri læsti árásarmanninn inn í bílnum og hefur verið hylltur sem hetja.

Árásarmaðurinn lést í sprengingunni sem varð fyrir utan kvennasjúkrahúsið í Liverpool skömmu fyrir klukkan 11:00 í gær. Leigubílstjórinn var fluttur slasaður á sjúkrahús en hann er sagður í stöðugu ástandi.

Russ Jackson, yfirmaður hryðjuverkadeildar lögreglunnar á Norðvestur-Englandi, segir að sprengjan sem sprakk hafi verið heimasmíðuð. Rannsókn beinist nú að því hvernig hún var smíðuð, hvert tilefni árásarinnar var og hvort að árásarmaðurinn hafi átt sér vitorðsmenn.

Á minningardegi um breska hermenn

Fjórir karlmenn á þrítugsaldri voru handteknir á grundvelli hryðjuverkalaga í Kensington-hverfinu í Liverpool í gær. Sprengjan sprakk á minningardegi um fallna breska hermenn og skammt frá athöfn í tilefni hans nærri sjúkrahúsinu.

Jackson sagði fjölmiðlum í dag að svo virðist sem að leigubílstjórinn hafi tekið farþegann upp nærri Sefton-garði, almenningsgarði í sunnanverðri borginni. Farþeginn hafi beðið bílstjórann um að aka sér að sjúkrahúsinu.

„Þegar leigubíllinn nálgaðist áfangastaðinn við sjúkrahúsið varð sprenging inni í bílnum sem varð fljótt alelda,“ sagði hann, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Hetjulegar gjörðir bílstjórans

Joanne Anderson, borgarstjóri Liverpool, segir að David Perry, leigubílstjórinn sem særðist, hafi læst dyrum bílsins svo að árásarmaðurinn kæmist ekki út. 

„Leigubílstjóranum tókst með sínum hetjulegu gjörðum að afstýra því sem hefði getið orðið algerlega hræðilegar hamfarir á sjúkrahúsinu,“ sagði Anderson við BBC.

Fjölmiðlamaðurinn umdeildi Piers Morgan birti mynd af manni sem hann segir vera Perry við hlið myndar af bílnum sem virðis hafa brunnið til kaldra kola. Lýsti Morgan honum sem „algerri hetju“ sem hafi nær örugglega bjargað fjölda mannslífa.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×