Innlent

Jóhanna Sigurðar­dóttir hlaut braut­ryðj­enda­verð­launin

Eiður Þór Árnason skrifar
Sil­vana Koch-Mehrin, for­seti og stofnandi Wo­men Politi­cal Lea­ders, Jóhanna Sigurðardóttir og Hanna Birna Kristjánsdóttir, stjórnarformaður samtakanna.
Sil­vana Koch-Mehrin, for­seti og stofnandi Wo­men Politi­cal Lea­ders, Jóhanna Sigurðardóttir og Hanna Birna Kristjánsdóttir, stjórnarformaður samtakanna. WPL

Jóhanna Sigurðar­dóttir, fyrr­verandi for­sætis­ráð­herra, hlaut í dag braut­ryðj­enda­verð­launin á Heims­þingi kven­leið­toga í Hörpu. Verð­launin, sem eru nefnd Tra­il­blazer Award, voru af­hent við há­tíð­lega at­höfn en þau eru veitt kven­þjóðar­leið­togum sem eru taldir hafa skarað fram úr og rutt brautina fyrir komandi kyn­slóðir í jafn­réttis­málum.

Greint er frá þessu í til­kynningu en Jóhanna er fyrsti kven­kyns for­sætis­ráð­herra Ís­lands og fyrsta opin­ber­lega sam­kyn­hneigða konan sem gegnir em­bættinu á heims­vísu.

Jóhanna var for­sætis­ráð­herra Ís­lands á árunum 2009 til 2013 og for­maður Sam­fylkingarinnar frá 2009 til 2012. Hún sat á Al­þingi í 35 ár frá árinu 1978 til 2013 og var fé­lags­mála­ráð­herra árin 1987 til 1994 og 2007 til 2009. Árið 2009 valdi For­bes hana á lista yfir 100 valda­mestu konur heims.

Jóhanna tekur við verð­laununum í Hörpu.WPL

Leitt til við­horfs­breytingar

Sil­vana Koch-Mehrin, for­seti og stofnandi Wo­men Politi­cal Lea­ders (WPL), segir að Ís­land sé fyrir­mynd annarra þjóða þegar komi að þjóðar­leið­togum.

„Í mörg ár hefur Ís­land verið leiðandi á heims­vísu í Global Gender Gap Report, skýrslu Al­þjóða­efna­hags­ráðsins, og er það að hluta til að þakka braut­ryðj­endum eins og Jóhönnu Sigurðar­dóttur for­sætis­ráð­herra.“

Koch-Mehrin bætir við að Jóhanna hafi, líkt og allir við­tak­endur braut­ryðj­enda­verð­launanna, haft á­hrif á við­horf fólks til kven­leið­toga og opnað dyr fyrir þær sem á eftir koma.

Jóhanna bætist í hóp á annan tug kven­leið­toga sem hafa hlotið viður­kenningu frá upp­hafi WPL Tra­il­blazer verð­launanna árið 2017.

Verð­launin hafa meðal annars fallið í skaut Mary Robins­son, fyrr­verandi for­seta Ír­lands, Ernu Sol­berg, for­sætis­ráð­herra Noregs, Laura Chinchilla Miranda, fyrr­verandi for­seta Kosta Ríka, Juli­a Gillard, fyrr­verandi for­sætis­ráð­herra Ástralíu, Katrínar Jakobs­dóttur for­sætis­ráð­herra Ís­lands, Saara Kuugongelwa-Ama­dhila, for­sætis­ráð­herra Namibíu, og Vig­dísar Finn­boga­dóttur, fyrr­verandi for­seta Ís­lands og verndara Heims­þings kven­leið­toga.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.