Fótbolti

Líkkistufagn fyrir framan stuðningsmenn mótherjanna gerði allt vitlaust

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Victor Cuesta og félagar í Internacional gengu alltof langt í því að strá salti í sár mótherja sinna strax eftir leik.
Victor Cuesta og félagar í Internacional gengu alltof langt í því að strá salti í sár mótherja sinna strax eftir leik. Getty/Silvio Avila

Nágrannaslagur Internacional og Gremio í brasilíska fótboltanum endaði með tuttugu og tveggja manna slagsmálum eftir að leikurinn hafði verið flautaður af.

Internacional vann 1-0 sigri á nágrönnum sínum í Gremio um helgina og fyrir vikið er lið Gremio í enn verri málum í fallbaráttu deildarinnar.

Eftir að sigurinn var í höfn þá hlupu leikmenn Internacional í átt að stuðningsmönnum mótherjanna í Gremio og veifuðu í átt að þeim sérstökum pappaspjöldum sem voru hönnuð eins og líkkistur.

Það átti að ýja að því að Gremio væri að falla úr deildinni og þetta fagn fór heldur betur fyrir brjóstið á mörgum.

Flestir leikmenn Gremio höfðu þarna yfirgefið völlinn en þeir hlupu nú inn á völlinn aftur og allt varð vitlaust þegar leikmenn liðanna fóru að slást.

Tveir leikmenn, einn úr hvoru liði, fengu rauða spjaldið. Patrick Nascimento, leikmaður Internacional, var annar þeirra en hann virtist fara fyrir Líkkistufagninu þegar hann hljóp í átt að Gremio-áhorfendunum með líkkistuspjald í sitthvorri hendi.

Leikmenn, þjálfarar, starfsmenn og öryggisverðir reyndu að skilja á milli manna en það tók nokkurn tíma að enda slagsmálin.

Liðin eru bæði frá borginni Porto Alegre og Gre-Nal derbyslagurinn er einn sá heitasti í fótboltaheiminum.

Gremio er í næst neðsta sæti deildarinnar með aðeins 26 stig úr 29 leikjum. Það lítur út fyrir að liðið falli úr deildinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.