Fótbolti

Helgi hafnaði færeysku liði: „Væri sæmilega pillan á Eyjamenn“

Þungavigtin skrifar
Kristján Óli Sigurðsson, Rikki G og Mikael Nikulásson standa að Þungavigtinni.
Kristján Óli Sigurðsson, Rikki G og Mikael Nikulásson standa að Þungavigtinni.

Þjálfarinn Helgi Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, fékk tilboð frá færeyska félaginu NSÍ um að koma og þjálfa liðið. Hann hafnaði tilboðinu.

Þetta kom fram í nýjasta þætti Þungavigtarinnar í dag.

„Helgi sagði: „Takk en nei takk“. Ég skil það vel. Það var erfitt fyrir hann að vera í Eyjum út af fjölskylduástæðum og þá er hann ekkert að fara til Færeyja,“ sagði Rikki G en Helgi var síðast þjálfari ÍBV. Hlusta má á umræðuna hér að neðan.

Klippa: Þungavigtin - Helgi Sig fékk tilboð frá Færeyjum

Helgi stýrði Eyjamönnum upp í úrvalsdeild en ákvað svo að stíga frá borði og var það vegna fjölskylduástæðna. Hermann Hreiðarsson tók við af honum.

NSÍ varð í 2. sæti færeysku deildarinnar á síðustu leiktíð og lék því í forkeppni Sambandsdeildarinnar í sumar. Liðið er nú í 5. sæti í Færeyjum en getur náð 4. sætinu með sigri gegn B36 um helgina í lokaleik sínum á tímabilinu.

Liðið heillaði Helga hins vegar ekki nóg og þar gætu fjölskylduástæður einnig hafa ráðið úrslitum.

„Samkvæmt minni landafræðihugsun þá er styttra til Vestmannaeyja heldur en Færeyja, þó það sé ekki langt þangað. Það væri sæmilega pillan á Eyjamenn ef hann hefði sagt já við þessu djobbi,“ sagði Mikael Nikulásson.

„Helgi ætlar greinilega ekkert að þjálfa í meistaraflokki á næsta ári, því hann hætti með Vestmannaeyjar og fékk ekkert annað djobb. Hann sagði samt þegar hann sagði upp í Eyjum að hann hefði mikinn áhuga á að þjálfa áfram. En svo erum við bara á Íslandi og það eru margir þjálfarar en ekkert svo mörg djobb,“ sagði Mikael.

Hlusta má á þáttinn í heild sinni og alla þætti Þungavigtarinnar á tal.is/vigtin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×