Innlent

Átta hjá héraðssaksóknara greindust smitaðir af Covid

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Átta starfsmenn hjá héraðssaksóknara hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni. 
Átta starfsmenn hjá héraðssaksóknara hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni.  Vísir/Vilhelm

Átta starfsmenn héraðssaksóknara greindust smitaðir af kórónuveirunni um helgina. Fjöldi starfsmanna hefur verið settur í smitgát og fresta hefur þurft nokkrum dómsmálum vegna stöðunnar. Lágmarksfjöldi starfsmanna stendur nú vaktina á skrifstofu embættisins við Skúlagötu. 

Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, í samtali við fréttastofu. 

„Við lentum í því á mjög stuttum tíma að fá meldingar um að átta starfsmenn væru greindir með Covid. Fyrsta meldingin kom um helgina, síðan kemur þetta flest fram á mánudag og þriðjudag,“ segir Ólafur. 

Þetta er fyrsta sinn sem svo mörg smit greinast á skrifstofu héraðssaksóknara þó svo að einn og einn starfsmaður hafi greinst smitaður misseri ótengt vinnustaðnum. Líklegt sé þó nú að veiran hafi borist eitthvað á milli manna í vinnunni. 

„Við sendum nánast alla starfsmenn heim með heimavinnu á meðan við erum að kæla vinnustaðinn. Við erum að láta sótthreinsa starfsstöðvarnar meira og erum örfá sem erum að halda starfseminni gangandi,“ segir Ólafur. 

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir að einhverjum dómsmálum hafi þurft að fresta vegna stöðunnar hjá embættinu. Vísir/Vilhelm

Ekki sé grunur um að smit hafi borist út í dómssal en þó hafi þurft að fresta einhverjum dómsmálum sem embættið sæki. 

„Það er ekki grunur um að smit hafi borist út í dómssal. Þetta er bundið mest við hóp sem er ekki að vinna í réttarsölum. Engu að síður var haft samband við dómara í þeim málum sem var verið að sækja, sérstaklega þar sem var verið að leiða til vitni eða í fjölmennari réttarhöldum. Það var ákveðið að fresta þeim nánast öllum,“ segir Ólafur.

Allir starfsmenn hafi verið sendir í smitgát um leið og fyrstu fréttir um smit bárust og allir sendir í hraðpróf í byrjun vikunnar. Nokkrir þurftu að fara í sóttkví. Smitgátin rennur út hjá flestum fyrir helgina en Ólafur segist ætla að ganga aðeins lengra og láta alla starfsmenn fara í hraðpróf fyrir veirunni áður en þeir koma aftur til starfa á mánudag. 


Tengdar fréttir

Vill herða tak­markanir til að tryggja gleði­leg jól

Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsanna, segist vilja herða samkomutakmarkanir sem fyrst til að hægt verði að tryggja að landsmenn geti haldið gleðileg jól í desember. Hann segir að þau farsóttarhús sem nú séu starfrækt séu að fyllast og að álagið á kerfið sé gífurlegt.

144 greindust með Covid-19 í gær

Alls greindust 144 með Covid-19 hér á landi í gær. Þetta staðfestir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við fréttastofu. Tæplega þriðjungur þeirra sem greindust eru á Akranesi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.