Erlent

Al­þjóða­bankinn stöðvar fjár­hags­að­stoð til Súdan

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
David Malpass, forseti Alþjóðabankans, sagði í yfirlýsingu í dag að hann hefði miklar áhyggjur af ástandinu í Súdan og áhrifunum sem það hefði á efnahagsþróun landsins.
David Malpass, forseti Alþjóðabankans, sagði í yfirlýsingu í dag að hann hefði miklar áhyggjur af ástandinu í Súdan og áhrifunum sem það hefði á efnahagsþróun landsins. Getty/Samuel Corum

Alþjóðabankinn og hefur nú stöðvað fjárhagsaðstoð til Súdan eftir að herinn framdi þar valdarán á mánudag og handtók nokkra ráðherra landsins. 

Einingarsamtök Afríku hafa sömuleiðis ákveðið að stöðva fjárhagsaðstoð til landsins og þrýsta þar með á herinn að skila völdunum aftur til borgara. 

Miklar óeirðir hafa verið á götum súdanskra borga undanfarna daga og hafa að minnsta kosti tíu manns fallið í átökum við öryggissveitir hersins samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins.

Yfirherforinginn Abdel Fattah al-Burhan leysti upp ríkisráð hers og almennings, sem sett var á laggirnar til að tryggja að lýðræðislegar kosningar færu fram í landinu eftir að einræðisherranum Omar al-Bashir var steypt af stóli í apríl 2019. 

Burhan vill meina að herinn hafi neyðst til að taka völd til að koma í veg fyrir borgarstyrjöld en samkvæmt frétt Reuters gæti ákvörðun Alþjóðabankans um að stöðva fjárhagsaðstoðina til landsins orðið gífurlegt högg fyrir áætlanir Burhans en Súdan er eitt fátækasta land Afríku. Eftir að hafa verið alveg lokað af fyrir fjárhagsstuðningi alþjóðasamfélagsins á þriggja áratuga valdatíð Bashirs fékk Súdan loks fulla fjárstyrki frá Alþjóðabankanum frá og með marsmánuði síðastliðnum. Síðan þá hefur ríkið fengið meira en tvo milljarða bandaríkjadala í fjárstuðning frá stofnuninni. 

„Ég hef miklar áhyggjur af atburðunum í Súdan og ég hræðist að þeir muni hafa gríðarleg neikvæð áhrif á félagslegan og efnahagslegan bata og þróun landsins,“ sagði David Malpass forseti Alþjóðabankans í yfirlýsingu í dag. 

„Við vonum að friður náist að nýju og að lýðræði komist á í landinu til þess að efnahagsþróun Súdans komist aftur á skrið og landið geti tekið sitt réttmæta sæti í alþjóðlega efnahagssamfélaginu.“

Abdalla Hamdok, forsætisráðherra landsins, stærði sig mikið af því í vor að náðst hafi samkomulag við Alþjóðabankann og gerði það dagljóst að landið stólaði á styrki frá bankanum til að fjármagna metnaðarfulla innviðauppbyggingu. 

Þá hafði ríkisstjórnin gripið til drastískra efnahagsaðgerða, sem gerðu það að verkum að ríkið gat afmáð að hluta til skuldir almennings og samningur um fjárhagsstuðning frá Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var endurnýjaður. 


Tengdar fréttir

Minnst þrír hafi fallið í valda­ráni súdanska hersins

Súdanski herinn hefur tekið völd í landinu og handtekið ráðherra. Mikil átök hafa verið milli hersins og mótmælenda og talið að minnst þrír hafi fallið í óeirðum í dag. Minnst áttatíu eru særðir eftir átök dagsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.