Erlent

Rússar gera umfangsmikla töluvárás í Bandaríkjunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Tölvuþrjótarnir eru að reyna að nota stóran gagnagrunn stolinna lykilorða til að komast inn í skýþjónustu Microsoft.
Tölvuþrjótarnir eru að reyna að nota stóran gagnagrunn stolinna lykilorða til að komast inn í skýþjónustu Microsoft. Getty

Sérfræðingar Microsoft og aðrir netöryggissérfræðingar vestanhafs segja Leyniþjónustu Rússlands standa fyrir umfangsmikilli netárás á Bandaríkin. Rússneskir tölvuþrjótar séu að reyna að brjóta sér leið inn í tölvukerfið þúsunda stofnan, fyrirtækja og hugveita í Bandaríkjunum.

Árásin beinist gegn skýþjónustu Microsoft og hefur fyrirtækið varað forsvarsmenn rúmlega sex hundruð stofnana og fyrirtækja við um það bil 23 þúsund tilraunum til að komast inn í kerfi þeirra.

New York Times segir bandaríska embættismenn hafa staðfest að árásin standi yfir. Microsoft hefur ekki sagt hvort árásin sé vel heppnuð.

Tölvuþrjótar þessir eru sagðir vera á vegum SVR (áður KGB) og hafa þeir margsinnis áður verið bendlaðir við tölvuárásir sem þessar. Meðal annars brutu tölvuþrjótar stofnunarinnar sér leið inn í tölvukerfi Demókrataflokksins í aðdraganda forsetakosninganna 2016 og stóðu við SolarWinds árásina, sem var gríðarstór.

Í SolarWinds árásinni komust tölvuþrjótarnir inn í kerfi fyrirtækis sem selur stofnunum og fyrirtækjum hugbúnaðartól til að stjórna tölvukerfum. Því tóli breyttu þeir svo þrjótarnir öðluðust aðgang að fjölda tölvukerfa án þess að nokkur yrði þess var.

Sjá einnig: Ráðgjafi vissi af og varaði við hættunni á tölvuárás

Að þessu sinni eru tölvuþrjótarnir rússnesku sagðir beita stórum gagnagrunni stolinna lykilorða til að reyna að komast inn í skýþjónustu Microsoft.

Ríkisstjórn Joes Biden, forseta Bandaríkjanna, rak tíu rússneska erindreka úr landi í apríl og beitti refsiaðgerðum gegn 32 einstaklingum og fyrirtækjum í Rússlandi. Það var meðal annars gert vegna tölvuárása Rússa í Bandaríkjunum.

Sjá einnig: Vísa tíu Rússum úr landi og beita refsiaðgerðum

Embættismenn Í Bandaríkjunum segjast vera að spýta í lófana varðandi tölvuárásir sem þessar. Sérstaklega með tilliti til fjölgunar gagnagíslatökuárása, sem eru margar gerðar af rússneskum tölvuþrjótum. Ríkisstjórn Bidens hefur lagt til aðgerðir til að gera árásir sem þessar mun erfiðari.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.