Innlent

Börðu eldri mann og spörkuðu í höfuð hans

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögreglan fékk tilkynningu um líkamsárás í miðborginni um klukkan hálf þrjú í nótt.
Lögreglan fékk tilkynningu um líkamsárás í miðborginni um klukkan hálf þrjú í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu brást við tilkynningu um líkamsárás í miðborg Reykjavíkur á þriðja tímanum í nótt. Samkvæmt dagbók lögreglunnar réðust tveir ungir menn á ölvaðan eldri mann. Haft er eftir vitnum að árásinni að þeir hafi barið manninn og sparkað í höfuð hans þar sem hann lá í götunni.

Annar árásarmannanna var handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins. Þolandinn var fluttur með sjúkrabíl á bráðadeild til aðhlynningar, en lögregla hefur ekki upplýsingar um hversu alvarlega hann er slasaður.

Um klukkan hálf eitt í nótt fékk lögregla þá tilkynningu um „unglingapartý“ í Kópavogi. Tilkynnt var um að húsið sem um ræðir hafi verið troðfullt. Þegar lögreglu bar að garði voru um 200 ungmenni á staðnum og áfengisumbúðir á víð og dreif. Í ljós kom að gestgjafinn var 16 ára. Forráðamaður gestgjafans kom þá á vettvang og við það yfirgáfu partýgestir svæðið. Lögregla hefur sent tilkynningu til barnaverndar vegna málsins.

Í dagbók lögreglu fyrir liðna nótt er þá að finna sjö tilvik þar sem ökumenn voru grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×