Erlent

Leita í húsum sem tengjast rússneskum ólígarka

Samúel Karl Ólason skrifar
Starfsmenn FBI við hús í Washington sem sagt er tengjast rússneska auðjöfrinum Oleg Deripaska.
Starfsmenn FBI við hús í Washington sem sagt er tengjast rússneska auðjöfrinum Oleg Deripaska. AP/Manuel Balce Ceneta

Starfsmenn Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) leituðu í dag í húsum í Washington DC og New York sem sögð eru tengjast rússneska auðjöfrinum Oleg Deripaska. Atlagan tengist rannsókn FBI en yfirvöld Bandaríkjanna hafa beitt Deripaska refsiaðgerðum vegna afskipta Rússa af forsetakosningunum 2016.

Deripaska er mjög auðugur og náinn Vladímír Pútín, forseta Rússlands. Hann stakk margsinnis upp kollinum við rannsókn Robert Mueller, sérstaks rannsakanda dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, og var beittur refsiaðgerðum árið 2018.

Hann og nokkrir aðrir rússneskir auðkýfingar voru beittir refsiaðgerðum. Deripsaka reyndi þó að losna undan aðgerðunum með dómsmáli í Bandaríkjunum fyrr á þessu ári. Alríkisdómari komst þó að þeirri niðurstöðu að aðgerðir fjármálaráðuneytisins ættu rétt á sér og auðjöfurinn hefði ekki fært rök fyrir máli sínu.

Oleg Deripaska var beittur refsiaðgerðum vegna aðkomu hans að afskiptum Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016.AP/Alexander Zemlianichenko

Washington Post hefur eftir talskonu Deripaska að aðgerðirnar tengist refsiaðgerðunum. Hún segir einnig að auðjöfurinn eigi húsin ekki heldur ættingjar hans.

Sjá einnig: Kosningastjóri Trump fékk milljóna lán frá rússneskum ólígarka

Deripaska átti meirihluta í álfyrirtækinu Rusal, einu stærsta álfyrirtækja heims. Hann lét þó af stjórn sinni svo Bandaríkin felldu niður refsiaðgerðir gegn því. Í frétt Bloomberg er vitnað í skýrslu sem gerð var fyrr á árinu þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að Deripsaka stjórnaði í raun enn Rusal. Hann notaði eigur fyrirtækisins og starfsmenn í bæði sinn hag og hag rússneskra yfirvalda.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×