Síminn hefur gert samkomulag við franska sjóðastýringafyrirtækið Ardian France SA um mögulega sölu á dótturfélaginu Mílu sem sér um innviði fjarskipta á landsvísu. Viðræðurnar hafa verið ræddar í þjóðaröryggisráði en forsætisráðherra hefur falið samgönguráðherra að tryggja að ákveðnum skilyrðum verði mætt við söluna svo hún ógni ekki þjóðaröryggi. Hvaða skilyrði það eru liggja ekki fyrir og vill formaður Viðreisnar svör við því.
„Við þurfum einfaldlega að fara yfir það hvort þjóðaöryggisráð hafi ekki örugglega tryggt það að almannahagsmunir séu varðir, bæði flutningur á upplýsingum almennings og hins opinbera,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Samgönguráðherra segir aðeins um óvirka hluti að ræða við söluna en Þorgerður vill meina að þarna séu endastöðvar, bylgjulengdarkerfi, IP-NET og hluti GSM-netsins undir. Þegar ratsjárkerfið var sett upp árið 1992 hafi verið sett skilyrði að virkir hlutirnir væru framleiddir af NATÓ-þjóðum, annars ættu óvinveittar þjóðir greiðan aðgang að upplýsingum Íslendinga.
„Það er ekki að ástæðulausu að fólk er með áhyggjur af því að það sé hægt að opna bakdyramegin fyrir upplýsingar. Það er það sem öll njósnakerfi heimsins ganga út á, að fara bakdyramegin inn í flutningskerfið.“
Formaður Miðflokksins vill að komið verði í veg fyrir söluna en Þorgerður Katrín segir mikilvægt að tryggja að upplýsingar rati ekki í rangar hendur.
„Þetta ferli er búið að vera í næstum því 2 ár. Hvað hefur þjóðaöryggisráð verið að gera allan þann tíma, ég spyr mig.“