Fótbolti

Heldur að Lukaku verði hissa að sjá sig

Sindri Sverrisson skrifar
Ef að Romelu Lukaku spilar fyrir Chelsea á morgun verður nú að teljast líklegt að hann hafi kynnt sér hvaða varnarmönnum hann mætir, þó að Olsson vilji meina annað.
Ef að Romelu Lukaku spilar fyrir Chelsea á morgun verður nú að teljast líklegt að hann hafi kynnt sér hvaða varnarmönnum hann mætir, þó að Olsson vilji meina annað. Getty/Marc Atkins

Sænski knattspyrnumaðurinn Martin Olsson segist eflaust eiga eftir að koma félaga sínum Romelu Lukaku á óvart á morgun því Lukaku viti ekki að Svíinn sé orðinn leikmaður Malmö.

Olsson kom til Malmö frá Häcken í ágúst og spilar því með liðinu í Meistaradeild Evrópu. Næsti leikur Malmö er gegn sjálfum Evrópumeisturum Chelsea með Romelu Lukaku í broddi fylkingar, annað kvöld í Lundúnum.

Olsson og Lukaku hafa áður mæst á fótboltavellinum, til að mynda í ensku úrvalsdeildinni og með landsliðum sínum, en kynnst betur utan vallarins. „Við erum oft í fríi á sama stað,“ segir Olsson sem hefur lengi þekkt Lukaku.

Olsson telur hins vegar að Lukaku sé lítið að spá í það að Svíinn sé nú orðinn leikmaður Malmö. Síðast þegar þeir töluðu saman var Olsson leikmaður Häcken.

„Þess vegna held ég að hann viti ekki að ég er núna í Malmö. Ég er ekki sá virkasti á Instagram svo ég set sjaldan eitthvað inn þar,“ segir Olsson við Aftonbladet. En verður Lukaku þá steinhissa á morgun?

„Já, það er alveg öruggt,“ segir Olsson hlæjandi.

Það er þó ekki víst að þeir Olsson og Lukaku muni eigast við á morgun. Thomas Tuchel, stjóri Chelsea, hefur sagt að Lukaku sé farinn að finna fyrir þreytu og líklegt má telja að hann fái sæti á varamannabekknum gegn Malmö, í leik sem ætti ekki að vefjast fyrir Evrópumeisturunum.

Martin Olsson og félagar eiga níðþungt verkefni fyrir höndum gegn Chelsea.Getty/Mike Kireev



Fleiri fréttir

Sjá meira


×