Fótbolti

Hriktir í stoðum Icardi-hjónanna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mauro Icardi og Wanda Nara eftir úrslitaleik frönsku bikarkeppninnar í fyrra.
Mauro Icardi og Wanda Nara eftir úrslitaleik frönsku bikarkeppninnar í fyrra. getty/Jean Catuffe

Það hriktir í stoðum hjónabands þeirra Mauros Icardi og Wöndu Nara miðað við færslur hennar á samfélagsmiðlum um helgina.

Nara er ekki bara eiginkona Icardis, sem leikur með Paris Saint-Germain, heldur einnig umboðsmaður hans. Mikla athygli vakti þegar þau tóku saman en Nara var þá gift Maxi López, þáverandi samherja Icardis hjá Sampdoria. Þau áttu þrjú börn saman.

Nara og Icardi gengu í það heilaga 2013 og eiga tvö börn saman. En nú virðist babb hafa komið í bátinn.

Nara hætti að fylgja Icardi á Instagram og sakaði hann um að hafa eyðilagt aðra fjölskyldu. Hann á að hafa haldið framhjá henni með fyrirsætunni Chinu Suárez.

Nara birti svo mynd af sér á Instagram án giftingarhringsins. „Góðan dag. Ég kann betur við höndina á mér án hrings,“ skrifaði hún við myndina.

Icardi þvertekur fyrir að hafa haldið framhjá Nöru. Orðrómurinn fékk samt byr undir báða vængi þegar hann fékk frí á æfingu hjá PSG á sunnudaginn vegna fjölskyldumála.

Icardi lék áður með Inter og var meðal annars fyrirliði liðsins. Á þeim tíma var Nara óhrædd við að gagnrýna forráðamenn félagsins opinberlega.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.