Innlent

Ung­lingar hrella íbúa í Vestur­bænum og á Nesinu

Árni Sæberg skrifar
Óþægir unglingar herja á íbúa Seltjarnarness um þessar mundir.
Óþægir unglingar herja á íbúa Seltjarnarness um þessar mundir. Vísir/Vilhelm

Íbúar Vesturbæjar og Seltjarnarness hafa tjáð sig um það sem virðist vera alda slæmrar hegðunar unglinga. Unglingum er gefið að sök að berja ítrekað á hurðir og glugga og vekja með því ótta meðal íbúa.

Íbúi í Vesturbæ segir, í færslu í Facebook-hóp Vesturbæinga, hóp krakka hafa ráðist á útidyrahurð heimilis hans. Hann segir það vera óþolandi háttsemi og til þess fallna að vekja bæði óþægindi og ótta.

Þá segir hann að hljóðin sem fylgdu hafi verið eins og væri verið að brjótast inn til hans. Hann segist hafa séð á eftir hópnum flýja vettvang á hlaupum eftir árásina.

Í dagbók lögreglu frá því í morgun segir að tilkynning hafi borist í gær um að garðálfi hafi verið grýtt í útidyrahurð í Vesturbæ í gærkvöldi.

Tíu ára dóttir þorir varla að vera ein heima

Íbúi Seltjarnarness deildi færslu mannsins áfram í Facebook-hóp Seltirninga en hann segir hóp krakka hafa nánast brotið rúðu í forstofu heimilis hans í gærkvöldi. Atvikið sé það nýjasta í röð fimm sambærilegra sem orðið hafa á nokkrum vikum.

Íbúinn segir tíu ára dóttur sína varla þora að vera ein heima þar sem unglingarnir „berja svoleiðis á gluggana.“

Hann segir hópinn hafa talið fjóra eða fimm unglinga á aldrinum þrettán til fimmtán ára. Hann biðlar til foreldra á þeim aldri að ræða við börn sín.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.