Fótbolti

Azpilicueta um sigurmark Mbappé: „Skjárinn er hérna til þess að nota hann“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cesar Aspilicueta ræðir við Anthony Taylor í leiknum í kvöld.
Cesar Aspilicueta ræðir við Anthony Taylor í leiknum í kvöld. Mike Hewitt/Getty Images

Cesar Azpilicueta, varnarmaður Chelsea og spænska landsliðsins, segist ekki skilja af hverju dómari leiksins hafi ekki farið í skjáinn til að skoða sigurmark Kylian Mbappé þegar að Frakkland sigraði Spánverja 2-1 í úrslitaleik Þjóðardeildarinnar.

„Við vorum betra liðið þrátt fyrir að niðurstaðan segi annað,“ sagði Azpilicueta eftir leikinn.

„Við erum svekktir og auðvitað hefðum við viljað enda þetta á annan hátt. En svona er fótboltinn og við munum læra af þessu.“

Kylian Mbappé skoraði sigurmark Frakka þegar tíu mínútur voru til leiksloka, en hann var klárlega rangstæður þegar Theo Hernandez gaf boltann á hann.

Ástæðan fyrir því að Mbappé var hins vegar ekki dæmdur rangstæður er sú að Eric Garcia, varnarmaður spænska landsliðsins, reyndi að komast inn í sendinguna. Garcia kom við boltann, og samkvæmt reglunum þá var Mbappé ekki lengur rangstæður þar sem að varnarmaður andstæðinganna kom viljandi við boltann. Azpilicueta segist ekki skilja af hverju Anthony Taylor, dómari leiksins, hafi ekki farið sjálfur í skjáinn góða til að meta þetta atvik.

„Dómarinn er hérna til að taka ákvarðanir, en það sem ég er ósáttur við er að dómarinn sem tekur ákvörðunina er ekki Hr. Anthony Taylor, sem er á vellinum, heldur er það sá sem er í VAR-herberginu.“

„Skjárinn er hérna til þess að nota hann. Ég veit ekki af hverju hann fer ekki í skjáinn til að sjá þetta sjálfur og meta hvort að snertingin hafi verið viljandi eða ekki. Hann var augljóslega rangstæður og dómarinn sem situr uppi á skrifstofu að horfa á endursýningarnar segir að hann megi ekki snerta boltann.“

„Ég veit ekki af hverju dómarinn á vellinum sem skynjar leikinn getur ekki tekið ákvarðanir í skjánum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×