Innlent

Ástandið sagt stigmagnast í miðbænum

Snorri Másson skrifar
Minna hefur verið að gera hjá lögreglu um helgar vegna faraldursástands, en nú eru annirnar að verða meiri aftur.
Minna hefur verið að gera hjá lögreglu um helgar vegna faraldursástands, en nú eru annirnar að verða meiri aftur. Vísir/Vilhelm

Því lengur sem opið er inn í nóttina því verra verður ástandið, segir aðstoðaryfirlögregluþjónn. Fimm líkamsárásarmál eru til rannsóknar hjá lögreglunni eftir afar erilsama nótt. 

Hópslagsmál á víð og dreif um bæinn, líkamsárásir, óaldarseggir sem ekki vildu segja til nafns, veist að farþega í leigubíl og skemmdir gerðar á bílnum og maður skallaður utan við skemmtistað þannig að tennur hans brotnuðu, árásarmaðurinn lét sig hverfa. Þetta er á meðal þess sem nefnt er á nafn í dagbók lögreglu, sem hafði í nógu að snúast um helgina.

„Þetta virðist vera að stigmagnast. Ástandið er að fara í fyrra horf. Þetta er ekki meira en í venjulegu árferði en miðað við hvernig þetta hefur verið í Covid þá virðist fólk vera að sleppa sér meira,“ segir Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.Vísir/Jóhann K

Fimm mál séu til rannsóknar hjá embættinu eftir helgina og ljóst að einhver þeirra leiða til ákæru.

„Það var einn skallaður í andlitið og það brotnuðu tennur í honum. Svo voru þetta átök í heimahúsi sem voru kærð og það var ráðist á leigubílsstjóra,“ segir Jóhann Karl.

Enn er aðeins opið til eitt á næturnar á skemmtistöðum vegna samkomutakmarkana.

„Eins og ég er margbúinn að segja áður: Því lengur sem er opið inn í nóttina, því verra verður ástandið. Ofbeldisbrotin verða harðari og alvarlegri eftir því sem er opið lengur. Núna var talsvert um tilkynningar eins og um hópslagsmálin, en þetta varð ekki neitt alvarlegt. En þegar þú ert kominn lengra inn í nóttina og fólk er orðið ruglaðra af neyslu þá verða þetta oft alvarlegri mál,“ segir Jóhann Karl.

Þannig opnunartíminn eins og hann er núna, þótt mörgum blöskri hann, heldur hann þessu tiltekna atriði í skefjum? 

„Já, það er mín tilfinning. En fólk rasar alltaf út þegar það fær sér í glas en það sem við höfum séð og eigum tölur um er að það kemur veldisvöxtur á þetta þegar líður á nóttina. Þegar fólk er að koma út af stöðunum klukkan fimm eða sex um nóttina geturðu rétt ímyndað þér í hvaða ástandi það er þá.“


Tengdar fréttir

Stöðvuðu hópslags­mál á veitinga­stað

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að skerast í leikinn á veitingastað í Reykjavík á tíunda tímanum í gærkvöldi eftir að tilkynning barst um hópslagsmál. Þar tókust á um átta til tíu manns, en engan sakaði og lögregla leysti málið á vettvangi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.