Erlent

Þungunar­rofs­lögin taka aftur gildi í Texas

Þorgils Jónsson skrifar
Texasríki fær um sinn að halda til streitu lögum sem takmarka verulega réttindi kvenna til þungunarrofs. Áfrýjunardómstóll kvað upp úrskurð þess efnis í gær, en ríkisstjórn Joe Bidens hefur frest fram á þriðjudag til að  bregast við.
Texasríki fær um sinn að halda til streitu lögum sem takmarka verulega réttindi kvenna til þungunarrofs. Áfrýjunardómstóll kvað upp úrskurð þess efnis í gær, en ríkisstjórn Joe Bidens hefur frest fram á þriðjudag til að  bregast við.

Áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum heimilaði í gær Texasríki að halda lögum um þungunarrof til streitu, en tveimur dögum áður hafði alríkisdómari fellt lögin úr gildi.

Lögin sem um ræðir tóku fyrst gildi fyrsta september og voru strax fordæmd um allt land og víða um heim enda eru þau sú ströngustu í Bandaríkjunum. Samkvæmt þeim er þungunarrof ólöglegt allt frá því fyrst mælist hjartsláttur í fóstri, sem er jafnan eftir um sex vikna meðgöngu. Engar undantekningar eru veittar, jafnvel þótt þungunin komi til vegna nauðgunar eða sifjaspells.

Almennir borgarar geta kært veitendur þjónustu fyrir brot á lögunum, sem og alla þá sem hvetur eða aðstoðar konu við að leita þjónustunnar. Kærendur þurfa ekki að tengjast konunni með neinum hætti til að kæra, en leiði kæran til sakfellingar eiga kærendur engu að síður rétt á tíu þúsund dala miskabótum.

Í frétt AP kemur fram að sé litið til síðasta árs voru 55 þúsund þungunarrofsaðgerðir gerðar í ríkinu, en einungis um 15% þeirra voru gerðar á sjöttu viku eða fyrr.

Alríkisdómari, sem skipaður var í forsetatíð Barack Obama, ógilti lögin á miðvikudag, með þeim rökum að lögin gengu gegn stjórnarskrárvörðum rétti kvenna til þungunarrofs.

Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði árið 1992 að ríki gætu ekki bannað þungunarrof fyrr en fóstur gæti lifað utan legs, sem er um tuttugustu og fjórðu viku meðgöngu.

Yfirvöld í Texas lýstu því strax yfir að þau hygðust áfrýja þessum úrskurði, en áfrýjunardómstóllinn sem tók málið fyrir er skipaður íhaldssömum dómurum.

Sem fyrr sagði, samþykkti áfrýjunardómstóllinn beiðni Texas um að leyfa lögunum aftur að taka gildi, um stundarsakir hið minnsta, og gaf ríkisstjórn Joe Bidens forseta frest fram á þriðjudag til að bregðast við.


Tengdar fréttir

Alríkisdómari frestar gildistöku laga gegn þungunarrofi

Alríkisdómarinn Robert L. Pitman hefur staðfest beiðni bandaríska dómsmálaráðuneytisins um að fresta gildistöku afar umdeildrar löggjafar í Texas, sem bannar þungunarrof eftir sjöttu viku meðgöngu.

Fyrsti læknirinn ákærður vegna þungunarrofs í Texas

Búið er að kæra fyrsta lækninn fyrir að framkvæma þungunarrof í Texas eftir að ný og ströng lög tóku gildi. Alan Braid, læknirinn sem um ræðir, sagði opinberlega frá því í síðustu viku að hann hefði framkvæmt aðgerð sem væri gegn lögunum.

Hefur ekki hitt eina konu sem styður lögin

Íslensk kona búsett í Texas hefur þungar áhyggjur af umdeildum lögum sem banna nær alfarið þungunarrof í ríkinu. Hún telur meirihluta Texasbúa andsnúna lögunum.

Telja rétt kvenna til þungunarrofs afnuminn í skjóli nætur

Ákvörðun íhaldssamra dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna um að fella ekki úr gildi lög í Texas sem banna þungunarrof nær undantekningarlaust þrátt fyrir að þau virðist stangast á við dómafordæmi sætir harðri gagnrýni. Dómararnir eru sakaðir um að afnema grundvallarrétt kvenna í skjóli nætur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×