Fótbolti

Hákon eftirsóttur og Bologna vill fá hann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson er af miklum fótboltaættum.
Hákon Arnar Haraldsson er af miklum fótboltaættum. vísir/Bára

Ítalska úrvalsdeildarliðið Bologna er með Skagamanninn unga hjá FC København, Hákon Arnar Haraldsson, í sigtinu.

Hákon, sem er átján ára, kom til FCK frá ÍA fyrir tveimur árum. Hann hefur leikið þrjá leiki fyrir aðallið FCK.

Ítalski íþróttafréttamaðurinn Rudy Galetti greinir frá því að fjölmörg félög í Evrópu fylgist grannt með Hákoni og nefnir Bologna sérstaklega til sögunnar í því samhengi. Hann segir að FCK gæti fengið tilboð í Hákon þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður í byrjun næsta árs.

Hákon er núna með U-19 ára landsliðinu í undankeppni EM í Slóveníu. Hann kom Íslendingum á bragðið í 3-1 sigri á heimamönnum í fyrradag. Hákon lék með U-21 ára landsliðinu í síðustu landsleikjahrinu og skoraði meðal annars bæði mörk Íslands í 1-2 útisigri á Hvíta-Rússlandi. Hann hefur alls leikið 25 leiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað sjö mörk.

Samherji Hákons hjá FCK, Andri Fannar Baldursson, lék með Bologna áður en hann fór til danska liðsins í haust.

Bologna er í 9. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar með ellefu stig eftir sjö umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×