Innlent

Reikna með töluverðum áhrifum á ferðaþjónustuna

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Bjarnheiður Hallsdóttir fagnar því að Ísland sé loks komið af rauðum lista Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna.
Bjarnheiður Hallsdóttir fagnar því að Ísland sé loks komið af rauðum lista Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna. Vísir/Egill

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, fagnar því að Ísland sé ekki lengur á rauðum lista Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna og reiknar með því að breytingarnar muni hafa töluverð áhrif í för með sér. Um sé að ræða stærsta og einn mikilvægasta hóp ferðamanna hér á landi.



„Þetta hafa verið um fimmtíu prósent af þeim ferðamönnum sem koma til landsins núna á þessu ári. Þannig að þetta er gríðarlega mikilvægur hópur og því er þetta mjög jákvætt að þetta skuli hafa gerst núna,“ segir Bjarnheiður.

Ísland var sett í fjórða og efsta áhættuflokk stofnunarinnar í ágúst, sem þýddi að Bandaríkjamönnum var ráðlagt frá því að ferðast til landsins. Ísland er nú í þriðja flokki, sem er appelsínugulur, sem þýðir að Bandaríkjamenn eru beðnir um að hugsa sig um áður en þeir ferðast hingað og ekki gera það nema þeir séu fullbólusettir, því hætta sé á að þeir smitist af kórónuveirunni.

„Þeir sem best þekkja til reikna með að þetta hafi kostað okkur 20 til 30 prósent af nýjum bókunum. Og þetta hafði sömuleiðis slæm áhrif a hópferðir þannig að það dró verulega úr komum hópa á ákveðnum tíma út af þessu. En vissulega voru margir sem létu þetta sem vind um eyru þjóta og komu samt.“

Bjarnheiður segir að þrátt fyrir að Ísland sé enn í áhættuflokki, þá sé þarna verið að ryðja annarri hindrun úr vegi, sem sé mjög jákvætt.

„Við reiknum með að þetta hafi töluverð áhrif þannig að það verði töluvert meiri eftirspurn frá Bandaríkjunum en við vorum að horfa fram á þannig að við gerum okkur vonir um að Bandaríkjamenn verði enn þá öflugri núna á næstu mánuðum. Og veitir ekki af, því að við erum ekki búin að ná fullum styrk enn þá og töluvert í það virðist vera.”



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×