Innlent

Slakað verður á í litlum skrefum þegar þar að kemur

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. Vísir/Sigurjón

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra telur ekki tímabært að slaka á sóttvarnarráðstöfunum að svo stöddu og hefur framlengt gildandi ráðstafanir um hálfan mánuð. Ráðherrann á von á að þegar slakað verði á verði það gert í litlum skrefum.

Samkomutakmarkanir miðast því áfram við fimm hundruð manns, skemmtistaðir mega aðeins vera opnir til klukkan eitt á nóttunni og viðhalda þarf grímuskyldu áfram í ákveðnum aðstæðum.

„Það eru í raun og veru óbreyttar samkomutakmarkanir sem að Þórólfur gerði tillögu til mín um. Þannig að það eru engar breytingar og engar tilslakanir en ekki herðingar heldur. Hann telur að það sé of margt svona á huldu með þróun faraldursins enn þá og við erum að sjá þetta tuttugu þrjátíu smit á sólarhring enn þá. Þannig að hann gerir þetta að tillögu sinni og hann raunar leggur til að þetta sé til fjögurra vikna. En ég legg til og mín niðurstaða er sú að staðfesta það til tveggja vikna í viðbót og svo sjáum við bara hvernig þessu vindur fram,“ segir Svandís.

Hún segist eiga von á að þegar slakað verði á sóttvarnaraðgerðum verði það gert í litlum skrefum.

„Við erum svolítið brennd af því að hafa tekið mjög afgerandi ákvörðun í sumar og hafa þá fengið þessa ofsalega stóru bylgju sem var í raun og veru stærsta bylgja faraldursins. Þannig að við lítum svo á að það sé mikilvægt að öll skref séu tekin mjög varfærin,“ segir Svandís.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×