Erlent

Á þriðja hundrað þúsund börn mis­notuð af kaþólskum prestum

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Í heildina eru um 115 þúsund prestar og klerkar innan kaþólsku kirkjunnar í Frakklandi. 
Í heildina eru um 115 þúsund prestar og klerkar innan kaþólsku kirkjunnar í Frakklandi. 

Um það bil 216 þúsund börn hafa verið mis­notuð af kaþólskum prestum í Frakk­landi frá árinu 1950. Óttast er að fjöldi barna gæti náð 330 þúsund þegar mis­notkun af hálfu annarra með­lima kirkjunnar er tekin inn í myndina. Þetta er niður­staða nýrrar rann­sóknar­skýrslu sem birt var í dag.

Jean-Marc Sau­vé, for­maður rann­sóknar­nefndar sem fór fyrir skýrslunni, sagði á fundi þar sem skýrslan var kynnt að mis­notkunin hafi verið kerfis­bundin. Þá sagði hann að í stað þess að vernda börnin hafi kirkjan gerst sek um „djúp­stætt, al­gjört og jafn­vel grimmi­legt af­skipta­leysi árum saman.“

Niður­stöðurnar sýna að kirkjan hafi ekki gert nægi­lega mikið til að koma í veg fyrir mis­notkun. Það hafi ekki verið fyrr en fyrir um fimm árum sem kirkjan fór að skipta sér af málum tengdum mis­notkun innan kirkjunnar. Að sögn Sau­vé mun kirkjan þurfa að gera veru­legar úr­bætur til að vinna aftur traust sam­fé­lagsins.

Um er að ræða hátt í 2.500 blað­síðna skýrslu en kaþólska kirkjan í Frakk­landi skipaði rann­sóknar­nefnd til að fjalla um málið árið 2018. Niður­staða nefndarinnar var að flest fórnar­lömb mis­notkunar voru ungir drengir og glímdi meiri­hluti fórnar­lamba enn við af­leiðingar brotanna sem þau urðu fyrir.

Talið er að um þrjú þúsund af 115 þúsund prestum og klerkum kirkjunnar hafi brotið á börnum út frá þeim gögnum sem eru til staðar en nefndin tók það þó fram að lík­lega væru þeir fleiri. Að því er kemur fram í frétt Guar­dian um málið hefur sak­sóknurum verið gert við­vart í nokkrum málum.


Tengdar fréttir

Banna prestum að misnota fullorðna

Kynferðisbrot presta gegn fullorðnum verða nú sérstaklega bönnuð með breytingum sem Frans páfi hefur fyrirskipað á lögum kaþólsku kirkjunnar. Þá verður einnig hægt að refsa leikmönnum sem starfa fyrir kirkjuna fyrir kynferðisbrot.

Páfi heitir því að uppræta misnotkun innan kirkjunnar

Frans páfi hét því að uppræta kynferðislega misnotkun innan veggja kaþólsku kirkjunnar í kjölfar umfangsmikillar skýrslu um kynferðisbrot bandarísks fyrrverandi kardinála sem var birt í gær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×