Jean-Marc Sauvé, formaður rannsóknarnefndar sem fór fyrir skýrslunni, sagði á fundi þar sem skýrslan var kynnt að misnotkunin hafi verið kerfisbundin. Þá sagði hann að í stað þess að vernda börnin hafi kirkjan gerst sek um „djúpstætt, algjört og jafnvel grimmilegt afskiptaleysi árum saman.“
Niðurstöðurnar sýna að kirkjan hafi ekki gert nægilega mikið til að koma í veg fyrir misnotkun. Það hafi ekki verið fyrr en fyrir um fimm árum sem kirkjan fór að skipta sér af málum tengdum misnotkun innan kirkjunnar. Að sögn Sauvé mun kirkjan þurfa að gera verulegar úrbætur til að vinna aftur traust samfélagsins.
Um er að ræða hátt í 2.500 blaðsíðna skýrslu en kaþólska kirkjan í Frakklandi skipaði rannsóknarnefnd til að fjalla um málið árið 2018. Niðurstaða nefndarinnar var að flest fórnarlömb misnotkunar voru ungir drengir og glímdi meirihluti fórnarlamba enn við afleiðingar brotanna sem þau urðu fyrir.
Talið er að um þrjú þúsund af 115 þúsund prestum og klerkum kirkjunnar hafi brotið á börnum út frá þeim gögnum sem eru til staðar en nefndin tók það þó fram að líklega væru þeir fleiri. Að því er kemur fram í frétt Guardian um málið hefur saksóknurum verið gert viðvart í nokkrum málum.
