Fótbolti

Segist ekki vilja velja á milli fjöl­skyldunnar eða fót­boltans

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sara Björk í einum af sínum 136 landsleikjum.
Sara Björk í einum af sínum 136 landsleikjum. Vísir/Vilhelm

Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir er gengin nokkra mánuði á leið með sitt fyrsta barn. Hún vill vera ein þeirra afrekskvenna sem snýr aftur eftir barnsburð og þar með sýna að konur þurfi ekki að velja milli íþróttaferilsins eða að eiga fjölskyldu.

Sara Björk leikur með Lyon – einu albesta félagi heims – ásamt því að vera á samning hjá íþróttarisanum PUMA. Um helgina birti PUMA svo myndband á samfélagsmiðlum sínum þar Sara Björk fer yfir að það sé ekki annað hvort eða, að konur geti bæði átt atvinnuferil í íþróttum og fjölskyldu.

„Engin kona ætti að þurfa velja á milli þess að eiga fjölskyldu eða starfsferils. Kvenkyns íþróttamenn afreka ótrúlegustu hluti í ýmsum íþróttum. Þær fæða börn og snúa svo aftur til þess eins að endurtaka afrek sín. Markmið mitt er að vera ein þeirra. Ég vil ekki velja milli fjölskyldu og fótboltans. Ég vil gera það sem ég elska. Vera til staðar í 90 mínútur eða níu mánuði,“ segir Sara Björk í myndbandi PUMA.

Landsliðsfyrirliðinn birti svo myndbandið á sínum eigin Twitter-aðgangi þar sem hún ritaði eftirfarandi:

„Það er ekki annað hvort eða. Að stofna fjölskyldu á sama tíma og að íþróttir eru atvinna þín er erfitt. Ég vil virkilega sýna og sanna að það sé hægt að snúa aftur eftir barnsburð og spila á hæsta mögulega getustigi. 
Ég vonast til að hvetja konur til að gera slíkt hið sama og sýna þar með að það þurfi ekki að velja milli þess að eignast fjölskyldu eða eiga góðan atvinnuferil, það er hægt að gera bæði.“

Sara Björk Gunnarsdóttir er gengin átta mánuði á leið en hún á að eiga í nóvember næstkomandi. Hún hefur spilað alls 136 A-landsleiki og ef allt gengur að óskum gætu þeir orðið enn fleiri er Evrópumót kvenna í knattspyrnu fer fram í Englandi næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×