Innlent

Ellefu mánaða skil­orðs­bundinn dómur fyrir líkams­á­rás og fyrri brot

Árni Sæberg skrifar
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra á Akureyri þann 24. september síðastliðinn.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra á Akureyri þann 24. september síðastliðinn. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið dæmdur til ellefu mánaða skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar fyrir líkamsárás á Akureyri. Um er að ræða eins mánaðar hegningarauka við fyrri tíu mánaða dóm sem maðurinn hlaut í mars síðastliðnum.

Í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra, sem féll þann 24. september síðastliðinn en var birtur í dag, segir að maðurinn hafi verið ákærður fyrir líkamsárás fyrir að hafa veitt manni eitt hnefahögg í andlitið fyrir utan Pósthúsbarinn á Akureyri.

Afleiðing hnefahöggsins hafi verið sú að sá kýldi féll aftur fyrir sig rak hnakkann í stétt. Af því hafi hann hlotið bólgu á neðri vör og eymsli þar í kring, skurð vinstra megin á vörinni og skurð inni á vörinni og skurð í hársverði sem blæddi talsvert úr.

Þá segir að maðurinn hafi hlotið dóm í mars síðastliðnum fyrir vörslur fíkniefna, vopnalagabrot, akstur undir áhrifum fíkniefna og án ökuréttar og peningaþvætti. Refsing þá hafi verið fangelsi í tíu mánuði, skilorðsbundið í tvö ár.

Þar sem líkamsárásin hafi verið framin fyrir uppkvaðningu þess dóms og verði refsing fyrir líkamsárásina því ákveðin sem hegningarauki við hann. Í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála verði fyrri dómur dæmdur upp og refsing fyrir öll brotin dæmd í einu lagi.

Þá segir að brotaþoli hafi farið fram á skaðabætur að fjárhæð 527 þúsund krónum. Rétturinn fallist á að hann eigi rétt á miskabótum en að þær séu hæfilegar ákveðnar 150 þúsund krónur. Þá var manninum einnig gert að greiða brotaþola 27 þúsund krónur í skaðabætur vegna fjártjóns.

Manninum var einnig gert að greiða allan málskostnað, alls 197 þúsund krónur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×