Innlent

Morgun­blaðið hafi ekki valdið sak­lausum börnum van­virðu með mynd­birtingu

Árni Sæberg skrifar
Höfuðstöðvar Morgunblaðsins í Hádegismóum.
Höfuðstöðvar Morgunblaðsins í Hádegismóum. Vísir/Vilhelm

Foreldrar tveggja ungra barna sem birtust á mynd við Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins kærðu myndbirtinguna til Siðanefndar Blaðamannafélags Íslands. Siðanefndin taldi birtinguna ekki hafa verið til þess fallna að valda börnunum óþarfa sársauka eða vanvirðu.

Myndin sýndi börnin á gangi um fjölfarna götu í Reykjavík og var birt sem mannlífmynd á leiðarasíðu blaðsins. Foreldrar barnanna töldu myndina ekki hafa neina tengingu við skrif ritstjórnar, hafa verið tekna úr launsátri og hafi ekkert fréttagildi.

„Staðsetning hennar innan um sterkar skoðanir ritstjóra vekur hugrenningartengsl lesenda og tengir saklaus börnin við skoðanirnar, án nokkurrar vitundar þeirra eða okkar foreldranna, og án alls samráðs,“ segir í kærunni.

Foreldrarnir vísa til viðmiðana sem ýmis samtök á borð við Barnaheill - Save the Children á Íslandi, Fjölmiðlanefnd og UNICEF hafa tekið saman. Þá er einnig vísað til laga um persónuvernd og siðareglna Blaðamannafélags Íslands. Þeir telja brot Morgunblaðsins á siðareglum felast í „að hafa ekki vandað upplýsingaöflun sína með þeim afleiðingum að valda saklausum börnum vanvirðu.“

Segja myndina hefðbundna ljósmynd af mannlífi á Laugavegi

Ritstjórn Morgunblaðsins segir að ekki hafi verið reynt með nokkru móti að tengja umfjöllun Reykjavíkurbréfsins við umrædda ljósmynd sem sé hefðbundin ljósmynd af mannlífi á Laugavegi. Ótengdar myndir af af fjölbreyttu mannlífi fylgi iðulega Reykjavíkurbréfinu.

Þá segir að þrátt fyrir að ritstjórnin fullyrði að ekki sé um brot á siðareglum að ræða hafi myndin samt sem áður verið fjarlægð úr myndasafni eftir athugasemd foreldranna.

Siðareglur hafi ekki verið brotnar

Siðanefnd Blaðamannafélagsins tók ekki afstöðu til viðmiðana ofangreindra samtaka né persónuverndarlöggjöf heldur einungis eigin siðareglna. Niðurstaða nefndarinnar var sú að að myndin hafi verið tekin á almenningi þar sem fólk geti ekki ætlast til þess að friðhelgi ríki.

Því hafi siðareglur BÍ ekki verið brotnar með myndbirtingunni að áliti Siðanefndar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×