Innlent

Ó­hugna­nlegt að hlusta á skriðurnar á meðan fjöl­skyldan var inn­lyksa

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Jóna Björg Hlöðversdóttir, bóndi.
Jóna Björg Hlöðversdóttir, bóndi. aðsend

Bóndi sem varð innlyksa þegar skriður féllu á vegi beggja megin við bæ hennar segir að það hafi verið óhugnalegt að hlusta á aurskriðurnar falla nálægt bænum í gærkvöldi. Fjölskyldan var sótt með þyrlu og bær hennar rýmdur.

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi á Tröllaskaga vegna úrkomu á Norðurlandi eystra. Nokkrir sveitabæir í Þingeyjarsveit hafa verið rýmdir vegna úrkomu og skriðuhættu. 

„Mikil upplifun en ekkert sérlega þægilegt“

Jóna Björg Hlöðversdóttir bóndi á bænum Björgum, sem er einn þeirra bæja sem þurfti að rýma, segir að það hafi verið óhugnanlegt að hlusta á skriðuföll nærri bænum í gærkvöldi.

„Þetta var svolítið magnað og ótrúleg upplifun að heyra náttúruöflin og drunurnar eins og verstu jarðskjálftar. Þetta var mikil upplifun og ekkert sérlega þægilegt. Þegar líða tók á kvöldið og fór að dimma þá heyrðum við stórar drunur. Við heyrðum skriðurnar í kringum bæinn vera að falla og við vissum ekki hvar. Þá var mér pínu létt þegar það var tekin sú ákvörðun að fara að rýma svæðið,“ sagði Jóna Björg Hlöðversdóttir, bóndi á bænum Björgum.

Flutt með þyrlu af svæðinu

Fjölskyldan var flutt með þyrlu til Húsavíkur í gær þar sem þau voru innlyksa eftir að skriður höfðu fallið á vegi.

Systir Jónu Bjargar fór að bænum í morgun og hugaði að búfénaði. Jóna segir að ekki sé vitað af neinu tjóni á bænum.

„Það er enn hættustig þannig að ég á ekki von á því að við fáum að vera á svæðinu lengi í einu.“

Veginum í Útkinn frá gatnamótum við Norðausturveg hefur verið lokað vegna aurskriðna sem þar hafa fallið. Gular viðvaranir eru í gildi til miðnættis í nótt á Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra og á Ströndum vegna talsverðrar eða mikillar úrkomu.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.