Innlent

Ekki hægt að útiloka að kvika sé á hreyfingu á svæðinu

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Skjálftahrinan við Keili hófst síðastliðinn mánudag en ekki liggur fyrir hvað veldur. 
Skjálftahrinan við Keili hófst síðastliðinn mánudag en ekki liggur fyrir hvað veldur. 

Ekkert lát er á skjálftahrinunni við Keili sem hófst síðastliðinn mánudag en í heildina hafa um tvö þúsund skjálftar mælst frá því að hrinan hófst, þar af sex sem voru yfir þrír að stærð. Stærsti skjálftinn hingað til varð fyrr í dag og var sá skjálfti 3,8 að stærð.

Enginn gosórói mælist á svæðinu en að sögn almannavarna er skjálftavirknin í þessari hrinu áþekk því sem sást við Fagradalsfjall í aðdraganda eldgossins þar.

„Á þessu stigi er hinsvegar ekki hægt að útiloka að skjálftarnir getir verið vegna spennubreytinga á svæðinu, en ekki vegna kvikuhreyfinga,“ segir í frétt almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Engin skýr merki eru um að kvika sé við það að brjóta sér leið til yfirborðs á svæðinu samkvæmt nýjustu mælingum en það er ekki útilokað að kvika sé þar á hreyfingu þar það sést ekki á mæligögnum ef það er á miklu dýpi.

Áfram er því fylgst með þróun virkninnar á svæðinu og er von á nýjum gervitunglamyndum í næstu viku sem vonast er til að þær myndir muni varpa ljósi á stöðu mála. Fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofu Íslands segir vísindamenn og viðbragðsaðila undir það búin ef kvika nær til yfirborðs við Keili.

Samkvæmt hraunflæðilíkani Veðurstofu Íslands og Háskóla Íslands er gert ráð fyrir gosi á um eins og hálfs kílómetra langri sprungu á svæðinu þar sem hrinan á upptök sín. Ef það kæmi til elgoss við Keili yrði það svipað gosinu við Fagradalsfjall.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×