Innlent

Stór og mikill borgar­ís­jaki undan ströndum Mel­rakka­sléttu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þessi mynd er tekin með 65-földum aðdrætti og blekkir því eitthvað. Vísindamaður á svæðinu telur þó að borgarísjakinn sé um 500 metrar að lengd.
Þessi mynd er tekin með 65-földum aðdrætti og blekkir því eitthvað. Vísindamaður á svæðinu telur þó að borgarísjakinn sé um 500 metrar að lengd. Mynd/Joana Micael

Stærðarinnar borgarísjaki lónar nú skammt undan ströndum Melrakkasléttu, við Hraunhafnartanga. Sennilegt er að hann hafi brotnað úr Grænlandsjökli.

Sjá má á vef Veðurstofunnar að henni bárust tilkynningar um tvo borgarísjaka á þessum slóðum í fyrradag, annar þeirra er botnfastur en hinn stór og mikill. Hann virðist vera laus en hreyfist þó lítið að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar.

Portúgalinn Pedro Rodrigues er forstöðumaður Rannsóknastöðvarinnar Rifs, sem staðsett er á Melrakkasléttu.

Í samtali við Vísi segist hann telja að borgarísjakinn sé um fimm hundruð metrar á lengd, þó erfitt sé að greina það nákvæmlega þar sem hann ísjakinn töluvert frá landi.

Rauðu þríhyrningarnir tákna staðsetningu borgarísjakanna.Veðurstofan

Meðfylgjandi mynd ýkir stærð ísjakans að einhverju leyti þar sem hún er tekin með 65-földum aðdrætti, en engu að síður er borgarísjakinn í stærri kantinum.

Frá Haunhafnarvita líti borgarísjakinn út eins og eyja búin til úr ís.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er skýjahula á þessum slóðum og því hafa ekki náðst gervitunglamyndir af ísjökunum. Sennilegast sé að borgarísjakarnir hafi brotnað úr Grænlandsjökli og borist með hafstraumum til Íslands.

Ísjakinn er töluvert frá landi en sést þó glögglega.Mynd/Þórný Barðadóttir


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×