Innlent

Ernir fljúga yfir vinnusvæði þrátt fyrir sprengingar og véladrunur

Kristján Már Unnarsson skrifar
Einar Valur Valgarðsson er verkstjóri Suðurverks í Þorskafjarðarbrú.
Einar Valur Valgarðsson er verkstjóri Suðurverks í Þorskafjarðarbrú. Arnar Halldórsson

Miklar sprengingar og drynjandi hávaði vinnuvéla í brúargerð í Þorskafirði hafa ekki fælt haferni frá vinnusvæðinu. Þeir fljúga yfir á hverjum degi til að forvitnast um framvindu verksins, að sögn verkstjóra Suðurverks.

Í fréttum Stöðvar 2 má sjá þegar sprengingu er hleypt af stað í nýju vegstæði við eystri brúarsporðinn. Þorskafjörðurinn nötrar og grjótinu rignir yfir vinnusvæðið. Trukkar og gröfur vinna svo á fullu.

Sprengt fyrir nýju vegstæði við eystri brúarsporðinn.Arnar Halldórsson

Fimm mánuðir eru frá því starfsmenn Suðurverks hófust handa við þverun Þorskafjarðar. Þeir mættu á svæðið þann 19. apríl en Suðurverk átti lægsta tilboð í verkið, upp á liðlega 2,2 milljarða króna.

„Þetta hefur gengið mjög vel og áfallalaust, - góður mannskapur. Við erum komnir hér út að mastri, þar sem brúin á að rísa,“ segir Einar Valur Valgarðsson, verkstjóri hjá Suðurverki.

Á miðjum firði er búið að gera vinnuplan þar sem smíði 260 metra langrar brúar er að hefjast.Arnar Halldórsson

Verkið fram til þessa hefur einkum falist í því að leggja veg út í fjörðinn og gera þar vinnuplan fyrir brúarsmíðina.

„Þetta þarf að síga og þetta er að verða nokkuð stabílt. Þannig að nú getur farið að hefjast niðurrekstur á staurum og í framhaldi af því bara brúarsmíðin.“

Sem gæti hafist í næstu viku, að sögn Einars. Eykt annast smíði brúarinnar, sem verður 260 metra löng, en alls bætast við 2,7 kílómetrar af nýjum vegi.

Brúin tekur land að austanverðu við Kinnarstaði. Vaðalfjöll í baksýn.Arnar Halldórsson

Heimamenn sýna verkinu mikinn áhuga.

„Já, það virðist vera mjög mikill áhugi. Fólk kemur hérna mikið og stoppar og fylgist með. Já, það sýnir þessu mikinn áhuga.“

Og ekki bara mannfólkið. Meðan fréttamenn Stöðvar 2 mynduðu brúarvinnuna flaug haförn yfir en Einar Valur segir arnarpar halda til á svæðinu.

„Já, þeir fljúga hérna yfir og fylgjast með. Þeir taka þetta út á hverjum degi hérna.“

Séð yfir vinnusvæðið.Arnar Halldórsson

En eru ernirnir ekkert hræddir við verktakana?

„Nei, þetta eru bara orðnir góðkunningjar okkar. Fara mjög nálægt okkur oft.“

-Það er dálítið spennandi að hafa þá fyrir augunum á hverjum degi.

„Já, þetta er tignarlegur og fallegur fugl. Þetta er bara vinalegt að hafa þá hérna,“ svarar verkstjórinn.

Verklok eru áætluð í júnílok árið 2024. Við það styttist Vestfjarðavegur um Þorskafjörð um níu kílómetra.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

Í frétt Stöðvar 2 fyrir tíu árum var fjallað um haförn sem kom upp unga við framkvæmdasvæði í Vatnsfirði:


Tengdar fréttir

Verktakinn byrjar þverun Þorskafjarðar í næstu viku

Verksamningur milli Vegagerðarinnar og Suðurverks um þverun Þorskafjarðar var undirritaður í dag. Vegamálastjóri segir þetta lið í gríðarlegum samgöngubótum á Vestfjörðum sem stytti leiðina milli Reykjavíkur og Ísafjarðar um fimmtíu kílómetra.

Telur skaða vegna nýs Vestfjarðavegar óbætanlegan

Stærsta verkið sem Vegagerðin hugðist ráðast í á næsta ári, þverun tveggja fjarða á sunnanverðum Vestfjörðum, fær afar neikvæða umsögn Skipulagsstofnunar, sem telur að ekki séu til mótvægisaðgerðir til að bæta fyrir eða koma í veg fyrir skaða vegna framkvæmdanna.

Sprengingar trufluðu ekki arnarvarp - sumarbústaðir meiri ógn en vegir

Haförn kom upp unga á miðju framkvæmdasvæði á Barðaströnd í fyrrasumar á sama tíma og sprengingar stóðu sem hæst nálægt hreiðrinu. Forstöðumaður Náttúrufræðistofu Vestfjarða segir erni ekki hræðast bíla jafnmikið og gangandi fólk. Sumarbústaðir séu mun verri á arnarsvæðum heldur en vegir.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.