Innlent

Örn verpir við þjóðveg og virðist laðast að fólki

Kristján Már Unnarsson skrifar
Arnarhreiðrið. Annað foreldrið með bráð í hægri kló en hitt foreldrið virðist sitja vinstra megin.
Arnarhreiðrið. Annað foreldrið með bráð í hægri kló en hitt foreldrið virðist sitja vinstra megin. Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Hafarnarpar á ónefndum stað á Vestfjörðum virðist óvenju gæft og hefur nú valið að gera sér hreiður aðeins 250 metra frá þjóðvegi. Þegar Stöð 2 var að mynda örninn á dögunum lét hann sér hvergi bregða og sat rólegur í mestu makindum skammt frá veginum.

Að höfðu samráði við Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun munum við þó ekki geta þess hvar á Vestfjörðum myndirnar voru teknar að öðru leyti en því að myndatökumaðurinn, Baldur Hrafnkell Jónsson, stóð við þjóðveginn þegar hann myndaði örninn. Myndskeiðin voru sýnd í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.

„Hann er náttúrlega bara til þess að heilla. En sem betur fer vita kannski ekki margir hvar hann er því það getur orðið svolítið ónæði af fólki ef fólk fer að nálgast hann of mikið,” segir Dagný Bryndís Sigurjónsdóttir, landvörður á Vestfjörðum hjá Umhverfisstofnun.

Dagný Bryndís Sigurjónsdóttir, landvörður hjá Umhverfisstofnun.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson
Þarna urðum við vitni að því þegar annað foreldrið kom með vænan bita í hreiðrið. Hitt foreldrið virtist sitja við hreiðrið. Hér háttar svo til að örninn hefur valið sér varpsstað aðeins um 250 metra frá þjóðvegi. Reglur segja að mönnum sé óheimilt að koma nær arnarhreiðrum en 500 metra. En hvernig vegnar erninum með hreiðrið svona nálægt veginum? 

„Mér sýnist þetta líta bara vel út. Það er kominn ungi,” segir Dagný Bryndís og segist fylgjast spennt með. Þarna sjáum við unga bregða fyrir  en það er talið hugsanlegt að ungarnir séu tveir í þessu hreiðri. 

Að sögn Kristins Hauks Skarphéðinssonar hjá Náttúrufræðistofnun virðist sem 48 hafarnarpör hafi orpið á landinu í ár en hann segir of snemmt að segja til um árangur varpsins. Tíðarfar hafi þó verið hagstætt. Kristinn segir að hafernir séu venjulega styggir og viðkvæmir gagnvart umgengni manna en þetta par sé mjög óvenjulegt, og undir það tekur landvörðurinn. 

„Hann virðist bara laðast að fólki hérna. Þegar Vegagerðin var að vinna þá fikraði sig hann bara nær þeim frekar en hitt og bara leið vel í návist þeirra,” sagði Dagný Bryndís.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.