Fótbolti

Launa­þak Barcelona nú að­eins einn sjöundi af launa­þaki Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Memphis Depay og félagar í Barcelona fá eintómar slæmar fréttir þessa dagana.
Memphis Depay og félagar í Barcelona fá eintómar slæmar fréttir þessa dagana. EPA-EFE/Quique Garcia

Lengi getur vont versnað. Leikur Barcelona er hruninn og fjárhagsvandræðin virðast ætla að þrengja enn frekar að liðinu. Nú verður líklegast enn erfiðara fyrir félagið að vera samkeppnishæft við þau bestu í Evrópu eins og krafan er í Barcelona.

Fyrir 3-0 tapið á móti Benfica í gær frétti Barcelona fólk af afdrifaríkari ákvörðun hjá þeim sem reka spænsku deildina.

Barcelona fær nefnilega enga sérmeðferð hjá forráðamönnum spænsku deildarkeppninnar þegar kemur að peningavandamálum Katalóníufélagsins. Það kreppir því enn að í Barcelona eftir að La Liga gaf út launaþakið hjá öllum félögum deildarinnar í gær.

Launaþak Barcelona er nú aðeins 98 milljónir evra sem fer fyrst í samhengi þegar menn sjá að launaþak erkifjendanna í Real Madrid er á sama tíma 739 milljónir evra.

Real Madrid tókst vel að taka á sínum rekstrarmálum í kórónuveirufaraldrinum og stendur því ágætlega að velli þrátt fyrir erfiða tíma.

Það er ekki sömu sögu að segja af rekstri Barcelona sem hefur verið í tómu rugli undanfarin ár. Slæm kaup á leikmönnum og endalaus ofurlaun hafa komið Barcelona niður í risaholu.

Það sýnir líka vel þróun mála hjá Barcelona hvernig launaþakið hefur þróast undanfarin ár. Skuldir félagsins eru yfir milljarð evra og launaþakið hefur hrunið eftir að hafa verið 671 milljónir evra 2018-19 tímabilið sem var einmitt síðasta tímabilið sem Börsungar unnu spænsku deildina.

Launþak Barcelona hefur því lækkað um 573 milljónir evra á aðeins 24 mánuðum.

Þrátt fyrir þetta segja forráðamenn Barcelona að þeir muni geta sótt sér nýja leikmenn í janúar og skipt um þjálfara ef þess þarf. Hvað sé mikið að marka slíkar yfirlýsingar verður að koma betur í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×