Innlent

Ó­breyttar niður­stöður að lokinni endur­­talningu í Suður­­kjör­­dæmi

Þorgils Jónsson og Eiður Þór Árnason skrifa
Þórir Haraldsson formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi.
Þórir Haraldsson formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi. Samsett

Endurtalningu atkvæða í Suðurkjördæmi lauk þrjár mínútur yfir miðnætti. Gerðar voru tvær endurtalningar og skiluðu báðar sömu niðurstöðu og upphaflega var kynnt á sunnudag. Standa úrslitin því óbreytt í Suðurkjördæmi. 

Þetta staðfestir Þórir Haraldsson, formaður yfirkjörstjórnar kjördæmisins, í samtali við Vísi. Unnið var að því að ganga frá kjörseðlunum og innsigla þegar blaðamaður náði af honum tali. Endurtalningin hófst klukkan 19 og stóð því yfir í fimm klukkustundir. RÚV greindi fyrst frá niðurstöðunni. 

„Þetta var í samræmi við það sem ég vonaðist en auðvitað er ekkert mannanna verk fullkomið og alltaf getur eitthvað mislagt svo það var mikill léttir að sjá að nákvæm vinnubrögð okkar starfsfólks hafi skilað sér,“ segir Þórir. 

Öll framboð í Suðurkjördæmi sendu umboðsmann í Fjölbrautaskóla Suðurlands til að fylgjast með endurtalningunni, fyrir utan Frjálslynda lýðræðisflokkinn. 

Fimm framboð óskuðu eftir endurtalningu

Þórir sagði í samtali við Vísi á ellefta tímanum að endurtalning atkvæða úr kjördæminu hafi gengið vel.

„Við erum langt komin með seinni yfirferð í endurtalningu og þetta lítur vel út. Við klárum þetta í rólegheitum,“ sagði hann þá.

Afar mjótt var á munum í kjördæminu þar sem einungis munaði sjö at­kvæðum á lista Vinstri grænna, sem náðu ekki inn manni, og Mið­flokksins sem fékk síðasta kjör­dæma­kjörna þing­mann kjördæmisins.

Fimm framboð óskuðu eftir endurtalningu í suðurkjördæmin og taldi yfirkjörstjórn ástæðu til að verða við þeirri beiðni. Talning fór fram í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi og hófst um kl. 19. 

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Ekkert at­huga­vert við talningu í Suð­vestur­kjör­dæmi

Landskjörstjórn hefur fengið þrjár skýrslur um framkvæmd talningar og á von á fleirum síðar í kvöld og á morgun. Óskað var eftir skýrslum frá yfirkjörstjórnum í öllum kjördæmum eftir að mistök komu í ljós við endurtalningu í Norðvesturkjördæmi í gær.

Útilokar að einhver hafi komist í kjörgögnin

Eigendur Hótels Borgarness telja afar ósennilegt að nokkur hafi getað átt við óinnsigluð kjörgögn sem skilin voru eftir í læstum veislusal af yfirkjörstjórn. Myndavélar séu við alla útganga salarins. Formaður yfirkjörstjórnar segir öruggt að enginn hafi farið inn í salinn meðan hann og aðrir í kjörstjórninni brugðu sér frá. 

At­kvæði verða talin aftur í Suður­kjör­dæmi

Ráðist verður í endurtalningu atkvæða í Suðurkjördæmi eftir að fjórir stjórnmálaflokkar fóru fram á slíkt. Þetta staðfestir Þórir Haraldsson, formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.