Innlent

Vill skýrslu frá öllum yfirkjörstjórnum um kosningarnar

Kolbeinn Tumi Daðason og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Kristín Edwald er formaður Landskjörstjórnar sem kemur saman til fundar klukkan hálf tvö í dag.
Kristín Edwald er formaður Landskjörstjórnar sem kemur saman til fundar klukkan hálf tvö í dag.

Kristín Edwald, formaður Landskjörstjórnar, segir að óskað hafi verið eftir skýrslum frá yfirkjörstjórnum í öllum kjördæmum um framkvæmd kosninga. Beiðni liggi fyrir um endurtalningu í Suðurkjördæmi en annars sé mat á endurtalningu í höndum yfirkjörstjórna í hverju kjördæmi.

„Landskjörstjórn mun funda klukkan hálf tvö í dag til að fara yfir stöðuna og ræða málin. Ég mun leggja til að það verði óskað eftir skýrslu um framkvæmd talninga og geymslu kjörgagna frá yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi en einnig frá öðrum yfirkjörstjórnum. Þannig að landskjörstjórn hafi upplýsingar um hvernig framkvæmdinni og talningunni var háttað í hverju kjördæmi,“ segir Kristín.

Aðspurð hvort tilefni sé til endurtalningar í kjördæmum landsins segir Kristín:

„Það hefur komið fram beiðni frá umboðsmönnum um að það verði endurtalið í Suðurkjördæmi. Ég veit að yfirkjörstjórnnin í Suðurkjördæmi mun funda upp úr hádegi til að taka afstöðu til þess hvort það verði endurtalið þar. Varðandi önnur kjördæmi, miðað við þær upplýsingar sem landskjörstjórn hefur núna undir höndum, þá verður ekki séð að það sé þörf á því að mati landskjörstjórnar. En auðvitað er matið í höndum yfirkjörstjórna í hverju og einu kjördæmi. Það eru þær sem bera ábyrgð á framkvæmd talningarinnar.“

Karl Gauti Hjaltason, fráfarandi þingmaður Miðflokksins, og Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi, ætla að kæra framkvæmd kosninganna. Karl Gauti til lögreglu en Magnús Davíð til kjörbréfanefndar.


Tengdar fréttir

Magnús Davíð kærir til kjör­bréfa­nefndar og krefst upp­kosningar

Magnús Davíð Norðdahl oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi hefur ákveðið að kæra kosningarnar í Norðvesturkjördæmi til kjörbréfanefndar Alþingis og fara fram á svokallaða uppkosningu sem felur í sér að kosið yrði að nýju í Norðvesturkjördæmi.

Karl Gauti ætlar að kæra framkvæmd kosninga til lögreglu

Karl Gauti Hjaltason, fráfarandi þingmaður Miðflokksins, er í þessum skrifuðu orðum að vinna að kæru til lögreglu. Krafa hans er skýr, að upplýst verði um atvik í Norðvesturkjördæmi þar sem ráðist var í endurtalningu. 

Viður­kennir að hafa ekki inn­siglað kjör­seðla og ber fyrir sig hefð

Formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi segir að kjörgögn hafi ekki verið innsigluð að talningu lokinni. Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í kjördæminu, segir trúverðugleika kosninganna engan og segir einu færu leiðina vera að kosið verði aftur í kjördæminu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×