Innlent

Þrír lögreglumenn lokið störfum eftir að þeir tilkynntu einelti

Eiður Þór Árnason skrifar
Tveir hafa lokið störfum hjá lögreglunni á Suðurnesjum eftir að þeir tilkynntu um eineltismál eða samskiptavanda.
Tveir hafa lokið störfum hjá lögreglunni á Suðurnesjum eftir að þeir tilkynntu um eineltismál eða samskiptavanda. Vísir/Vilhelm

Þrír lögreglumenn hafa hætt eða verið sagt upp störfum eftir að þeir tilkynntu einelti og önnur samskiptavandamál til dómsmálaráðuneytisins, fagráðs ríkislögreglustjóra eða yfirmanna. Tveir þeirra störfuðu hjá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og einn á höfuðborgarsvæðinu. Allir voru karlkyns.

Minnst ellefu eineltismál voru tilkynnt hjá lögregluembættum á árunum 2014 til 2020. Dreifast málin á öll lögregluembætti fyrir utan þau á Vestfjörðum og í Vestmannaeyjum. Ekki liggja fyrir upplýsingar um tilkynnt mál hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.

Samhliða þessu bárust 24 erindi til fagráðs ríkislögreglustjóra á árunum 2014 til 2020. Sautján þeirra vörðuðu einelti en sjö kynferðislega og/eða kynbundna áreitni. Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við þingfyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni, þingmanni Miðflokksins.

Samkvæmt því er lögregluembættunum og fagráðinu ekki kunnugt um að lögreglumönnum hafi verið sagt upp störfum eftir að þeir hafi tilkynnt einelti eða brot á almennum siðareglum.

Aðspurð um hve margir gerendur hafi verið látnir sæta ábyrgð fyrir einelti innan lögreglunnar og hve mörgum gerendum hafi verið sagt upp störfum svara lögregluembættin að slík mál hafi ekki komið upp.

Dreifing tilkynntra eineltismála eftir embættum

Lögregluembætti Fjöldi
Ríkislögreglustjóri 2
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu 2
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum Ekki fyrirliggjandi tölfræði
Lögreglustjórinn á Vesturlandi 1
Lögreglustjórinn á Vestfjörðum 0
Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra 1
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra 2
Lögreglustjórinn á Austurlandi 2
Lögreglustjórinn á Suðurlandi 1
Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum 0


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.