Innlent

Eigandi bílsins skilaði sér sjálfur í Landamannalaugar

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Landmannalaugum.
Frá Landmannalaugum. Vísir

Björgunarsveitarfólki sem var kallað út vegna mannlauss bíls nærri Landmannalaugum var snúið við á leiðinni eftir að eigandi bílsins skilaði sér sjálfur í skála þar. Eigandinn var erlendur ferðamaður sem hafði verið að njóta náttúrunnar.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að útkallið hafi borist eftir að tilkynnt var um mannlausan bíl sem hefði staðið óþægilega lengi á sama stað fyrir hádegi í gær. 

Óskað var eftir björgunarsveitarfólki með leitarhunda þar sem ekki var vitað með vissu hvar ætti að hefja leitina. Um þrjátíu björgunarsveitarmenn svöruðu útkallinu.

Málið leystist þó fljótt og farsællega því maðurinn skilaði sér sjálfur í skála í Landamannalaugum um klukkan 14:00 í gær. Davíð Már segir að ekkert hafi amað að manninum sem hafi aðeins skilið bílinn eftir til að njóta náttúrunnar í grenndinni.

Hann segir að ekki margir björgunarsveitarmenn hafi verið komnir á svæðið og flestir hafi því snúið við á leiðinni. Einhverjir sem voru fyrir á svæðinu voru byrjaðir að leita að eiganda bílsins.

Davíð Már segir málið ágætisáminningu um gagnsemi þess fyrir ferðalanga að skilja eftir upplýsingar um ferðaáætlanir sínar, annað hvort í bíl sínum eða hjá aðstandendum eða öðrum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×