Innlent

Grímseyjarkirkja brunnin til grunna

Samúel Karl Ólason skrifar
Norðanhvassviðri og rigning er í Grímsey þar sem kirkjan brann til kaldra kola í kvöld.
Norðanhvassviðri og rigning er í Grímsey þar sem kirkjan brann til kaldra kola í kvöld. Karen Nótt Halldórsdóttir

Mikill eldur kviknaði í Grímseyjarkirkju í kvöld. Kirkjan er að mestu leyti brunnin til grunna, þegar þetta er skrifað. 

Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra liggja eldsupptök ekki fyrir. Lítið er vitað annað en að engu hafi verið hægt að bjarga og enginn hafi verið í hættu.

Slökkviliðið í Grímsey barðist við eldinn en kirkjan er alfarið úr timbri og var ekki hægt að ráða við eldinn. Mbl greindi fyrst frá brunanum.

Rannsóknardeild lögreglunnar mun taka við vettvangi brunans þegar slökkvistarfi er lokið.

Kirkjan, sem ber nafnið Miðgarðakirkja, var byggð úr rekaviði árið 1867, samkvæmt upplýsingum á vef Akureyrarbæjar. Hún var færð árið 1932, vegna eldhættu, og var byggt við hana. Miklar endurbætur voru gerðar á henni árið 1956 og þá var hún endurvígð.

Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×