Fótbolti

Guðný í fyrsta sinn í byrjunarliði landsliðsins í keppnisleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðný Árnadóttir í leik með AC Milan í Meistaradeildinni í fótbolta á dögunum.
Guðný Árnadóttir í leik með AC Milan í Meistaradeildinni í fótbolta á dögunum. Getty/AC Milan

Guðný Árnadóttir er í byrjunarliði Íslands á móti Evrópumeisturum Hollands í undankeppni HM í kvöld.

Þorsteinn Halldórsson hefur tilkynnt byrjunarlið sitt og það kemur ekki margt á óvart fyrir utan kannski það að hægri bakvarðarstaðan kemur nú í hlut Guðnýjar.

Guðný er 21 árs gömul og spilar með A.C. Milan á Ítalíu. Hún lék með FH og Val áður en hún fór út í atvinnumennsku.

Guðný hefur aldrei áður verið í byrjunarliði í keppnisleik og níu af tíu landsleikjum hennar á ferlinum hafa verið vináttulandsleikir. Guðný kom inn á sem varamaður í hálfleik í báðum æfingarleikjunum við Ítalíu í apríl sem voru fyrstu leikir liðsins undir stjórn Þorsteins.

Sandra Sigurðardóttir er í markinu frekar en Cecilía Rán Rúnarsdóttir. Glódís Perla Viggósdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir eru líka áfram miðverðir og Sif Atladóttir byrjar því á varamannabekknum.

Miðjan er skipuð þeim Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur, Alexöndru Jóhannsdóttur og Dagný Brynjarsdóttur eins og áður. Sveindís Jane Jónsdóttir og Agla María Albertsdóttir eru síðan á köntunum og fremst er síðan Berglind Björg Þorvaldsdóttir.

Sandra og Agla María eru einu leikmenn íslenska byrjunarliðsins í kvöld sem eru að spila hér heima í Pepsi Max deildinni en hinar níu eru allar að spila sem atvinnumenn erlendis.

  • Byrjunarliðið Íslands á móti Hollandi í kvöld:
  • Sandra Sigurðardóttir
  • Guðný Árnadóttir
  • Glódís Perla Viggósdóttir
  • Ingibjörg Sigurðardóttir
  • Hallbera Guðný Gísladóttir
  • Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir
  • Alexandra Jóhannsdóttir
  • Dagný Brynjarsdóttir
  • Sveindís Jane Jónsdóttir
  • Berglind Björg Þorvaldsdóttir
  • Agla María Albertsdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×