Erlent

Sex nú sagðir látnir í skotárásinni í Rússlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Áhyggjufullar nemendur við Ríkisháskólann í Perm í morgun.
Áhyggjufullar nemendur við Ríkisháskólann í Perm í morgun. AP/Anastasia Jakovleva

Háskólanemi sem hóf skothríð á skólafélaga sína í borginni Perm í Rússlandi í morgun drap að minnsta kosti sex manns og særði fjöldi annarra. Hann særðist sjálfur þegar hann streittist gegn handtöku og liggur á sjúkrahúsi.

Upphaflega greindi alríkislögregla Rússlands frá því að átta manns hefðu fallið í skotárásinni í Ríkisháskólanum í Perm, um 1.300 kílómetra austur af Moskvu í morgnu. Reuters-fréttastofan segir nú að í það minnsta sex hafi fallið en fjöldi annarra særst. AP-fréttaveitan segir að 28 séu særðir.

Þá sagði talskona háskólans í fyrstu að árásarmanninum hefði verið „útrýmt“. Nú segir hún að hann sé í haldi lögreglu. Innanríkisráðuneytið segir að árásarmaðurinn hafi særst í skotbardaga við lögreglumenn.

Fjölmiðlar á svæðinu segja að árásarmaðurinn sé átján ára gamall nemandi við háskólann. Hann hafði birt myndbönd á samfélagsmiðlum fyrir árásina. Svo virðist sem að árásin hafi hvorki tengst stjórnmálum né trúarbrögðum heldur hafi ungi maðurinn verið knúinn áfram af hatri.

Talið er að árásarmaðurinn hafi komist yfir riffilinn sem hann notaði við ódæðið í maí. Strangar reglur eru um skotvopnaeign óbreyttra borgara í Rússlandi en hægt er að kaupa byssur til veiða, íþróttaiðkunar og sjálfsvarnar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Lög um skotvopnaeign voru hert eftir að unglingsdrengur myrti níu manns og særði fjölda annarra í skóla í borginni Kazan í maí. Aldursmörk til að kaupa skotvopn voru hækkuð úr átján árum í tuttugu og eins árs. Þau hafa þó enn ekki tekið gildi.

AP hefur eftir heilbrigðisráðuneytinu að nítján þeirra sem særðust hafi verið skotnir en sagði ekki hvernig hinir særðust. Frásagnir hafa verið um að nemendur hafi stokkið út um glugga á skólastofum til þess að komast undan byssumanninum.


Tengdar fréttir

Átta féllu í skotárás í rússneskum háskóla

Byssumaður skaut átta til bana og særði marga til viðbótar í háskóla í rússnesku borginni Perm í morgun. Að sögn innanríkisráðuneytis landsins er árásarmaðurinn í haldi en talsmaður skólans segir að hann hafi verið felldur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×