Fótbolti

Messi var allt annað en sáttur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi horfir á knattspyrnustjórann Mauricio Pochettino eftir að hafa verið tekinn af velli í gær.
Lionel Messi horfir á knattspyrnustjórann Mauricio Pochettino eftir að hafa verið tekinn af velli í gær. AP/Francois Mori

Fyrsti heimaleikur Lionel Messi með Paris Saint Germain endaði örugglega ekki eins og flestir höfðu séð það fyrir sér.

Paris Saint Germain liðið vann vissulega 2-1 sigur á Lyon í frönsku deildinni í gærkvöldi en stærsta málið eftir leikinn voru ekki úrslitin eða sigurmark Mauro Icardi í uppbótartíma.

Mál málanna eftir leikinn í gærkvöldi var fýldur og ósáttur Lionel Messi eftir að hann var tekinn af velli þegar fimmtán mínútur voru eftir og staðan var enn 1-1.

Það fór ekkert á milli mála að Messi var allt annað en sáttur og það leit út fyrir að hann neitaði að taka í höndina á knattspyrnustjóranum Mauricio Pochettino.

Messi hafði nokkrum sinnum verið nálægt því að skora í leiknum en var samt nokkuð frá sínu besta. Það var klappað fyrir honum þegar hann kom af velli en það stóð þó enginn upp.

Messi var í byrjunarliðinu með Ángel Di María, Neymar og Kylian Mbappé. Það vantaði því ekki sóknarþungann í uppstillingu liðsins. PSG liðið er hins vegar enn að leita að taktinum og liðið lenti undir í gær.

Parísarliðinu tókst að jafna úr vítaspyrnu en Pochettino var ekki sáttur og tók bæði Messi og Di María var velli þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka.

Það þótti mörgum fróðleg ákvörðun og voru sumir netverjar farnir að lýsa því yfir að þar hafi hann endað stjóraferill sinn hjá PSG. Skiptingin gekk hins vegar upp og Kylian Mbappé lagði upp sigurmark fyrir Mauro Icardi undir lokin.

„Ég held að við vitum öll að við erum með frábæra leikmenn í okkar 35 leikmanna hópi. Aðeins ellefu mega vera inn á í einu. Við megum ekki setja fleiri inn á völlinn. Ákvarðanirnar sem ég tek eru teknar með allt liðið og einstaka leikmenn í huga,“ sagði Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri PSG.

„Stundum ganga hlutirnir upp og stundum ekki. Stundum eru leikmenn ósáttir og stundum ekki. Þetta er okkar hlutverk og þetta eru ákvarðanir sem við stjórar þurfum að taka. Hvað varðar viðbrögð hans þá spurði ég hann hvernig hann væri og hann svaraði að allt væri í lagi. Þannig var það. Það voru samskipti okkar,“ sagði Pochettino.

Messi hefur spilað þrjá leiki með PSG en á enn eftir að skora eða leggja upp mark. Á sama tíma kom Cristiano Ronaldo í Manchester United og hefur skorað fjögur mörk í fyrstu þremur leikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×