Lífið

Gröfin loksins fundin eftir margra ára leit

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sunna Furstenau við kort af Íslandi, landið sem hún hefur heimsótt 21 sinni og nýtur hverrar einustu heimsóknar.
Sunna Furstenau við kort af Íslandi, landið sem hún hefur heimsótt 21 sinni og nýtur hverrar einustu heimsóknar. Vísir/Vilhelm

Sunna Pamela Olafson - Furtenau er ættuð úr Skagafirði, Eyjafirði og af Langanesi en hefur búið alla sína ævi í Bandaríkjunum. Hið sama gildir um fjölmarga afkomendur Íslendinga vestan hafs. 

Líklega eru þó fáir jafnstoltir af uppruna sínum og Sunna sem hefur undanfarin átta ár lagt blóð, svita og tár í vefinn Icelandic Roots. Enn ein ferð hennar til Íslands í sumar var sannarlega til fjár því gröf langalangafa hennar fannst á Sauðárkróki eftir langa leit.

Sunna er nýfarin af landi brott eftir rúmlega þriggja vikna heimsókn til föðurlandsins. Hún á ættir að rekja til Írlands, Skotlands og Noregs í móðurlegg en hugurinn leitar til Íslands. Alla daga. Svo snortin er hún af Íslandi og tengslum sínum að tilfinningarnar bera hana stundum ofurliði.

Sunna er tveggja barna móðir og moldrík þegar kemur að barnabörnum. Þau eru alls átta.

„Þau kalla mig ömmu,“ segir Sunna og vísar til þess að barnabörnin noti íslenska orðið „amma“.

Þau þekkja orðið ýmsar hefðir Íslendinga eins og t.d. þá að setja skóinn út í glugga dagana fyrir jól og þá setja jólasveinarnir þrettán, litlar gjafir í skóinn.

21 sinni komið til Íslands

Þessi heimsókn Sunnu var tuttugasta og fyrsta heimsókn hennar til lands forfeðranna. Hún hefur haldið fjölmörg erindi á ferðalögum sínum um landið en þessi ferð snerist að mestu um að hitta fólkið sitt og njóta dvalarinnar.

Sunna hefur frá árinu 2013 haldið úti vefnum icelandicroots.com. Um er að ræða sjálfseignarstofnun um ættfræði sem sextíu manns koma að, allir í sjálfboðavinnu. Fólk getur keypt sér aðgang að síðunni og fara tekjur af áskriftagjöldum í að styrkja hin ýmsu málefni svo sem Snorraverkefnið, fólk til náms eða annarra stofnana sem sinna vestur-íslenskum menningarmálum. Má þar nefna Vesturfararsetrið á Hofsósi og Vesturfaramiðstöð Austurlands á Vopnafirði.

Ættartré Sunnu eins og maður sér það á IcelandicRoots.com.

„Sumir skrá sig og vilja bara fá smá upplýsingar. Svo eru aðrir sem nota síðuna ekki neitt en vilja samt styrkja málefnið. Aðrir hafa fylgt síðunni frá byrjun,“ segir Sunna.

Um 650 manns eru skráðir inn á Icelandic Roots. Aðgangur kostar 45 dollara, tæpar sex þúsund krónur, fyrir þrjá mánuði en 150 dollara fyrir árið eða sem nemur rúmum 19 þúsund krónum. Veittir styrkir nema fleiri milljónum króna.

Í leit að betra lífi

Tilfinningarnar eru miklar og koma skýrt fram í frásögn Sunnu þegar hún ræðir langafa sinn sem fór utan árið 1905. Langafi hennar var frá Skagafirði og einn þeirra sem hélt frá Íslandi vestur um haf í leit að betra lífi.

Hún lýsir þeirri miklu fátækt og erfðileikum sem urðu þess valdandi að fólk sá ekki annað í stöðunni en að fara yfir hafið. Langafi hennar, sem Sunna var í miklum samskiptum við þar til hann lést árið 1982, sagði fallega frá hinu fallega Íslandi og þar var Skagafjörður, hans heimavöllur, í efsta sæti.

Sunna brá sér að sjálfsögðu í Geldingardali í heimsókn sinni og skoðaði eldgosið.Úr einkasafni

„Hann lýsti fegurðinni og hve mjög hann saknaði og elskaði Ísland,“ segir Sunna. Stór hluti fólks óskaði ekki að yfirgefa landið en sá ekki annan kost í stöðunni. Þetta hafi í raun snúist um líf eða dauða.

Gröf langalangafa fannst eftir langa leit

Hápunktur heimsóknar Sunnu í þetta skiptið var merkilegur fundur á Sauðárkróki. Ekki fundur sem hún sótti heldur hlutur sem fannst; gröf Jónasar Jónassonar, ferjumanns frá Tjörn, langalangafa Sunnu.

Sá er ekki jafnfrægur og Jón Ósmann, ferjumaðurinn frægi frá Sauðárkróki, en kemur þó fyrir í mörgum bókum. Jónas var ferjumaður til níu ára.

„Ég hef í mögum fyrri ferðum mínum verð að leita að gröf hans segir hún og hef nærri því lagt Hjalta Pálsson, ritstjóra og aðalhöfund Byggðasögu Skagafjarðar, í einelti með spurningum um hvort hann sé búinn að finna gröfina.“

Í vetur dró svo til tíðinda þegar Ingimar Jóhannsson sem gjörþekkir flest á Sauðárkróki staðsetti gröfina.

„Hjalti og Ingimar fóru með mig að stað í kirkjugarðinum og sögðu: Hann er hérna,“ segir Sunna, hrærð með fundinn.

„Ég var svo glöð.“

Hjalti hafi auk þess fundið fallegan stein úr stuðlabergi sem þau ætla að ferja í kirkjugarðinn og staðsetja ofan við grafreit Jónasar. Smella á koparplatta á stuðlabergið.

„Jónas Jónasson. Ferjumaður frá Tjörn“ mun standa á plattanum auk fæðingar- og dánardags.

Baggalútur og Káinn

Næst nefnir Sunna til sögunnar Káinn, eða K.N.; Kristján Níels Júlíus Jónsson. Vestur-íslenska skáldið sem þekktastur var fyrir kersknar og fyndnar ferskeytlur sínar. Káinn fluttist átján ára gamall til Kanada frá Eyjafirði árið 1877 og bjó fyrst í Winnipeg en síðar í Norður-Dakóta, hvar Sunna er uppalinn og býr enn.

Baggalútur gaf árið 2009 út plötuna Sólskinið í Dakota þar sem níu af ellefu lögum voru við kvæði eftir K.N. Ekki lét Baggalútur þar við sitja og gaf í fyrra út plötuna Kveðju með þrettán nýjum lögum við kvæði eftir K.N..

Sunna við minnisvarðann um Káinn á Akureyri.Úr einkasafni

Sunna segir stolt að Baggalútur hafi vísað í Icelandic Roots í einu lagi sinna en segir svo frá því þegar Káinn kom heim, ef svo má segja, til Akureyrar árið 2017. Þá stóð Þjóðræknisfélag Íslendinga fyrir því að gefa Akureyri afsteypu af minnismerki um Káinn sem stendur í kirkjugarði í Norður-Dakóta.

„Ég er bara sveitastelpa frá Norður-Dakóta,“ segir Sunna sem átti um árabil sæti í stjórn Þjóðræknisfélagsins og tók þátt í því að koma minnismerkinu um Káinn til Íslands. Við það tilefni tók hún þátt í málþingi á Akureyri í ágúst 2017 til heiðurs skáldinu.

Rekur ætt eftir ætt

Sunna ólst upp á bóndabæ í Norður-Dakóta. Þar bjó stórfjölskyldan á tveimur bóndabæjum sem vestufarar í leggnum reistu. Hefðirnar fylgdu vestur um haf og Sunna vissi því alla tíð frá íslenskum rótum sínum.

Hún getur vel bjargað sér á íslensku þótt viðtalið hafi farið fram á ensku. Hún gaf árið 2003 út bækur þar sem hún rakti ættir móður sinnar og tengdamóður til Noregs og Skotlands annars vegar og Ungverjalands og Frakklands hins vegar. Svo sneri hún sér að Íslandi, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Brugðið á leik við Heimskautagerðið við Raufarhöfn.Úr einkasafni

Hún komst í samband við Hálfdán Helgason ættfræðing sem stýrði stórum gagnagrunni á Íslandi. Gagnagrunnurinn var upphafið að Icelandic Roots sem Sunna kom á fót árið 2013 ásamt eiginmanni sínum, Jeff Furstenau. Síðan hefur stöðugt bæst í teymið þar sem fólk með áhuga á ættfræði en með sérþekkingu á ýmsum sviðum leggur hönd á plóg.

Grét með systrum sínum á Bessastöðum

Sunna minnist heimsóknar sinnar til Íslands árið 2017 og tárin byrja að streyma. Þá var hún heiðruð með riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín hjá Icelandic Roots. Hún náði reyndar ekki að mæta á athöfn á Bessastöðum þegar orður eru veittar, 17. júní eða nýársdag en fékk þess í stað sína eigin athöfn, með fólkinu sínu.

„Ég kem eiginlega alltaf ein til Íslands en þarna komu systur mínar með. Þær komu með á Bessastaði. Ég grét í rauninni allan daginn af gleði, “ segir Sunna með tárin í augunum.

Sunna ásamt Guðna forseta og systrum sínum.Kent Lárus Björnsson

Hún ber Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, afar vel söguna. Hún hafi raunar kynnst honum áður en hann varð forseti og stefndi í að sagnfræðingurinn kæmi í heimsókn til Norður-Dakóta og gisti hjá þeim. En svo hafi borist póstur um fyrirhugað forsetaframboð svo heimsóknin væri úr sögunni, í bili.

Sunna brosir og segist vel hafa skilið þann viðsnúning. Síðan hefur Guðni verið forseti í rúm fimm ár.

Erfðatré, bloggfærslur og hlaðvarp

En meira um Icelandic Roots. Á átta árum hafa verið skrifaðar 420 bloggfærslur á síðuna. Undirritaður skrifaði fyrir tveimur árum pistil um ömmur sem Bryndís Víglundsdóttir þýddi og birti á vef Icelandic Roots. Icelandic Roots er með YouTube rás og nýlega fór í loftið hlaðvarp.

Því má finna alls kyns kruðerí á síðunni þótt langflestir skemmti sér við að rekja ættir sínar. Sunna segir marga Íslendinga telja vesturfarana aðallega vera í Kanada. Þannig sé hún iðulega spurð út í tengsl Íslands við Kanada. Í þessu samhengi megi alls ekki gleyma Bandaríkjunum. Það séu Íslendingar úti um allt í Bandaríkjunum.

Heimasíða Icelandicroots.comÚr einkasafni

Hún nefnir Stephan G. Stephansson skáld sem dæmi um Íslendinga sem settu ekki síður svip sinn á Bandaríkin en Kanada. Stephan, sem var úr Skagafirði, fluttist til Bandaríkjanna og bjó í Wisconsinfylki og síðar að Görðum í Norður-Dakóta. Síðar meira fluttist hann til Kanada þar sem hann bjó í Albertafylki til dauðadags.

Eitt verkefni sem Sunna, og síðar Icelandic Roots, hafa sinnt lengi í Norður-Dakóta er að tengja Íslendinga við ættingja sína í vesturheimi. Verkefnið heitir „Cousins across the ocean“ eða „frændfólk yfir hafið“. Svo gefur Icelandic Roots út vikulegt fréttabréf. Það liggur við að blaðamaður falli í stafi yfir kraftinum í verkefninu, sjálfboðaverkefni frá A til Ö.

Margir lagt hönd á plóg

Fólkið sem kemur að Icelandic Roots er staðsett í Bandaríkjunum, Kanada og Íslandi. Cathy Josephson frá Minnesota er ein þeirra sem leggur Icelandic Roots mikið lið. Hún flutti til Íslands árið 1994 og heldur utan um Vesturfaramiðstöð Austurlands.

Sunna og Cathy á góðri stundu á Snaps fyrr í mánuðnum.Úr einkasafni

Sunna segir Cathy einstakan ættfræðing með sérþekkingu í Minnesotasvæðinu enda uppalin þar og þekki fólkið. Hún sé einn frábærra leiðtoga á Icelandic Roots. Fjölmargir fleiri leggi til vinnu við skrif, þýðingar eða vinnu á samfélagsmiðlum. Þarna sé fólk með tæknimenntun að baki, prófessorarar séu í hópnum en öll eigi það sameiginlegt að vera sjálfboðaliðar.

Áströlsk kona, sem flutti til Íslands til að börnin gætu lært íslensku, er þeirra á meðal. Þá er að nefna Almar Grímsson sem kom Sunnu í snertingu við Þjóðræknisfélag Íslands. Bryndís Víglundsdóttir hefur svo verið stórkostlegur vinur á Íslandi, segir Sunna, og nefnir að lopapeysan sem hún klæðist í viðtalinu sé úr smiðju Bryndísar.

Sunna ásamt Bryndísi Víglundsdóttur stórvinkonu sinni og lykilmanneskju á Icelandicroots.com.Úr einkasafni

„Bryndís hefur verið einn besti vinur minn á Íslandi, hjálpað mér mikið og gert góða hluti fyrir Icelandic Roots,“ segir Sunna. Nefnir hún að Bryndís sé að leggja lokahönd á barnabók sem komi út í Bandaríkjnum eftir nokkra mánuði.

Spenntust fyrir fræga fólkinu

Að lokum er ekki úr vegi að spyrja hverju fólkið vestan hafs, sem skoðar Icelandic Roots, sé spenntast fyrir. Þá koma víkingarnir við sögu, kannski ekki óeðlilega enda víkingarnir verið áberandi í ýmsum vinsælum sjónvarpsþáttum og bíómyndum undanfarin ár.

„Fólk vill vita hvernig það er skylt Ragnari Loðbrók,, Auði Djúpúðgu, Guðríði Þorbjarardóttur og Leifi heppna. Þetta finnst fólki spennandi.“

Þá leggur hún mikla áherslu á að Icelandic Roots fylgist mjög vel með notkun á gagnagrunni sínum enda mikilvægt að enginn sé að nota upplýsingarnar öðruvísi en í persónulegum tilgangi, til að rekja ættir sínar.

Hltui af Icelandic Roots teyminu sem snæddi saman í golfskála í Hafnarfirði á dögunum.Úr einkasafni

Sunna hvetur alla til að kynna sér Icelandic Roots og þá fjölmörgu styrki sem samtökin veiti árlega. Í sumar fékk hið sögufræga Riis hús á Borðeyri styrk til starfsemi sinnar en um 300 Íslendingar létu úr höfn frá Borðeyri á sínum tíma í von um betra líf í vesturheimi.

Næsta heimsókn Sunnu til Íslands verður ekki seinna en 2023 þegar Icelandic Roots fagnar tíu ára afmæli.

„Þá er planið að koma með allt teymið til Íslands,“ segir Sunna.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×