Innlent

Hús­næðis­skorturinn verði vonandi úr sögunni strax á næsta ári

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Katrín María Gísladóttir er 29 ára Ísfirðingur og nýr skólastjóri Lýðskólans á Flateyri.
Katrín María Gísladóttir er 29 ára Ísfirðingur og nýr skólastjóri Lýðskólans á Flateyri. Vísr/Sigurjón

Lýðskólinn á Flateyri hefur þurft að vísa frá umsækjendum vegna húsnæðisskorts í bænum. Ráða á bót á húsnæðisvandanum með byggingu nemendagarða, fyrstu íbúðarhúsum sem byggð verða í bænum í 25 ár.

Fyrsta önn undir stjórn nýs skólastjóra Lýðskólans á Flateyri; Katrínar Maríu Gísladóttur, hófst nú í september. Katrín er 29 ára Ísfirðingur en hefur búið á Flateyri síðustu fimm ár. Þrjátíu nemendur hófu nám við skólann í haust - akkúrat jafnmargir og svefnplássin sem nú eru í boði fyrir þá á almenna leigumarkaðnum á Flateyri.

„Það er búið að vera að metaðsókn fyrir þetta skólaár og því miður höfum við þurft að vísa nemendum frá, sem er ekki spennandi og það kemur niður á húsnæðisskorti á staðnum,“ segir Katrín.

Yrki arkítektar teiknuðu nemendagarðana sem eiga að komast í gagnið strax á næsta ári.

En húsnæðisskorturinn verður úr sögunni haustið 2022, gangi áætlanir um 14 íbúða nemendagarða eftir. Hundrað þrjátíu og fjögurra milljóna stofnframlag til byggingar nemendagarðanna hefur verið samþykkt. Húsin verða framleidd erlendis og flutt með skipi til Flateyrar næsta vor. 

Katrín segir þetta sérstaklega mikilvægt þar sem til stendur að bæta við þriðju brautinni við skólann, svokallaðri alþjóðabraut.

„Og verður þá markaðssett fyrir erlenda nemendur, það verður meira svona lífið á norðurslóðum,“ segir Katrín.

Hugur ungs fólks, einkum úr höfuðborginni, leiti greinilega í auknum mæli til Flateyrar.

„Það er mjög áberandi að fólk sækist hingað, og við erum sannfærð um að það séu einhverjir einstakir töfrar í Önundarfirði af því að fólk kemur hérna í heimsókn og svo kemur aftur og aftur og jafnvel sest að, kaupir hús,“ segir Katrín.


Tengdar fréttir

Flateyri komin í tísku hjá Íslendingum

„Mig langaði að prófa að fara á verbúð,“ segir Sunna Reynisdóttir aðspurð hvernig áratuga ástarsamband þeirra Magnúsar Eggertssonar er til komið. Hjónin reka saman Bryggjukaffi á Flateyri við Önundarfjörð þar sem gestagangur í sumar hefur farið fram úr björtustu vonum heimafólks.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×